Kafli 7: Samanburður erlendra fagaðila á lífeyriskerfum

Tvö erlend rannsóknarteymi birta árlega skýrslur með samanburði á lífeyriskerfum nokkurra tuga landa og raða þeim upp eftir einkunnum. Skýrslurnar nefnast Allianz Pension Sustainability Index og Melbourne Mercer Global Pension Index.

  • Eignastýringardeild Allianz gefur út skýrsluna um sjálfbærnivísitölu lífeyriskerfa og tók hún til 54 landa á árinu 2016. 
  • Rannsóknarsetur við Monash viðskiptaháskólann í Melbourne gefur út skýrsluna um heimsvísitölu lífeyriskerfa í samvinnu við Mercer ráðgjafafyrirtækið og tók hún til 27 landa á árinu 2016. 

Ísland er ekki í hópi samanburðarlanda í skýrslunum tveimur.

Hér á eftir fer stutt lýsing á aðferðafræði og einkunnagjöf þessara skýrslna og leitast verður við að meta hvernig Ísland kæmi út í þeim samanburði.

Melbourne Mercer heimsvísitala lífeyriskerfa er vegið meðaltal einkunna fyrir þrjá undirþætti: Nægjanleika (40%), sjálfbærni (35%) og traust (25%).

Tafla 21: Flokkun og vægi undirþátta í heimsvísitölu Melbourne Mercer:

Nægjanleiki (Adequacy) 40% Sjálfbærni (Sustainability) 35% Traust (Integrity) 25%
Réttindi Þátttaka Regluverk
Sjóðsöfnun Heildareignir Stjórnun
Skattahagræði Iðgjöld Verndun
Hönnun kerfis Lýðfræði Upplýsingamiðlun
Vaxtareignir Ríkisskuldir Kostnaður

Af  umfjöllun skýrslunnar um styrkleika og veikleika í hverjum þessara þátta má ráða að Ísland myndi fá háa einkunn í þeim öllum og líklega ná inn í eitt af efstu sætunum eða a.m.k. topp 10 af 27 löndum.. 

Styrk íslenska kerfisins má lýsa þannig: 

  • Réttindaöflun telst nægileg, þar eð lífeyrishlutfall af meðaltekjum kom vel út í samanburði í fyrrgreindri OECD-skýrslu um nægjanleika lífeyris frá árinu 2014. 
  • Sjóðsöfnun er viðhöfð að mestu leyti í stað gegnumstreymis. 
  • Lífeyrissparnaður nýtur skattahagræðis. 
  • Kerfið er í heildina skynsamlega hannað til að mæta frávikum. 
  • Skylduaðild leiðir til mjög mikillar þátttöku
  • Heildareignir sem hlutfall af landsframleiðslu eru með því mesta sem þekkist. 
  • Hækkandi iðgjöld styrkja kerfið
  • Lýðfræðileg einkenni þjóðarinnar eru hagstæð,
  • Ríkisskuldir eru lágar. 
  • Lagaumgjörð og skipulag stjórnunar og eftirlits er í föstum skorðum, svo og upplýsingamiðlun. 
  • Kostnaður er lágur á alþjóðlegan mælikvarða, m.a. eftir miklar sameiningar sjóða og samrekstur þjónustuþátta.

Sá þáttur sem mögulega gætu dregið einkunnina niður er:

Verndun - Þessi liður metur hættuna á að sjóðfélagar fái ekki þann lífeyri sem þeir gera nú ráð fyrir. Lagaákvæði um skerðingu vegna tryggingarfræðilegrar stöðu koma þar til álita. Einnig má gera ráð fyrir að hin mikla tekjutenging í almannatryggingakerfinu dragi einkunnina niður.

Allianz sjálfbærnivísitala lífeyriskerfa er vegið meðaltal undirþátta sem skiptast í þrjá flokka og fær núverandi staða 75% stuðul en fyrirséðar breytingar 25%. 

Tafla 22: Flokkun og vægi undirþátta í vísitölu Allianz:

Undirþáttur Núverandi staða (75%) Fyrirséðar breytingar (25%)
Lýðfræði Hlutfall aldraðra Breytingar á hlutfalli til 2050
Lífeyriskerfi Lífeyrishlutfall almannatrygginga (stoðir 0 og 1) og hve hátt hlutfall vinnandi fólks nýtur lífeyris Breytingar á lífeyrishlutfalli
Opinber og raunverulegur lífeyristökualdur Umbætur sem komnar eru í lög
Styrkur lífeyriseigna sem hlutfall af landsframleiðslu
Opinber fjármál Hlutfall lífeyris af landsframleiðslu Breytingar á hlutfalli lífeyris af landsframleiðslu til 2050 
Hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu
Þörf á félagslegri aðstoð

Af  umfjöllun skýrslunnar um styrkleika og veikleika í hverjum þessara þátta má ráða að Ísland myndi fá háa einkunn í öllum þáttunum og líklega ná inn í eitt af efstu sætunum eða a.m.k. topp 10 af 54 löndum.

Styrk íslenska kerfisins má lýsa þannig: 

  • Hlutfall aldraðra er lágt (en fer þó hækkandi og nálgast ýmis samanburðarríki um 2050).
  • Grunnfjárhæð ellilífeyris almannatrygginga fer hækkandi og löggjöfin hefur nýlega verið endurskoðuð. 
  • Opinber lífeyristökualdur er með því hæsta sem gerist og raunverulegur lífeyristökualdur enn hærri. 
  • Uppsafnaðar eignir lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar eru miklar. 
  • Hlutfall lífeyrisgreiðslna hins opinbera af landsframleiðslu er með því lægsta sem gerist og hækkar hægt. 
  • Ríkisskuldir eru lágar og fara lækkandi. 
  • Þörf á félagslegri aðstoð er hófleg, enda atvinnuástand mjög gott í alþjóðlegum samanburði.

Ekki er að sjá að veikleikar myndu lækka einkunnina mikið. Það er helst að mikil tekjutenging almannatrygginga gæti talist veikleiki og e.t.v. einnig hve ört hlutfall aldraðra hækkar á komandi áratugum.

Tafla 23: Útkoma samanburðarlandanna fjögurra (einkunnir í sviga)

Mercer (27 lönd) Allianz (54 lönd)
1. Danmörk (80,5) 2. Danmörk (7,93)
2. Holland (80,1) 3. Svíþjóð (7,81)
5. Svíþjóð (71,4) 4. Holland (7,75)
11. Bretland (60,1) 11. Bretland (7,20)

Niðurstaða

Mælikvarðarnir sem þessi þekktu rannsóknateymi leggja á gæði lífeyriskerfa benda til þess að Ísland standi mjög framarlega í þessum efnum. Æskilegt væri að stuðla að því að stofnanirnar tækju Ísland inn í útreikninga sína, en smæð landsins kann að torvelda það. Mercer reiðir sig að hluta á greiningu starfsmanna sinna í viðkomandi landi, en er ekki með starfsstöð á Íslandi.

Skoða fylgiskjöl

Opna PDF útgáfu með heimildaskrá (aftast í skjalinu)