Við erum með öflugt lífeyrissjóðakerfi á Íslandi en mikilvægt er að huga að því hvað sé hægt að gera betur og það byggir fyrst og fremst á þekkingu. Þess vegna er mikilvægt að þau sem eru að ráða fólk, og koma að mannauðsmálum almennt, búi yfir góðri þekkingu og geti miðlað henni áfram.
Á málstofunni voru flutt erindi frá einstaklingum úr ýmsum áttum þar sem markmiðið var að fræða bæði um lífeyrissjóðakerfið sjálft á Íslandi ásamt því að heyra reynslusögur innan fyrirtækja og mannauðsdeilda þeirra. Öll erindin má sjá hér fyrir neðan í fullri lengd.
Hildur Hörn Daðadóttir, formaður fræðslunefndar LL og forstöðumaður rekstrarsviðs Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, fjallaði um að rannsóknir bendi til þess að margir vilji hætta fyrr að vinna eða minnka við sig í stað þess að hætta alveg. Mikilvægt sé að atvinnulífið bjóði upp á sveigjanlega starfslokastefnu sem tekur mið af óskum og þörfum starfsfólks á þessum tímamótum.
Sveinborg Hafliðadóttir, mannauðs- og stefnustjóri BYKO, fjallaði um starfslokastefnu BYKO og hversu miklu máli það skiptir fyrir starfsfólk að vera vel upplýst um það við hverju má búast og hvernig starfslokaferlið er. Þau leggja áherslu á að nýta dýrmæta reynslu eldra starfsfólks með fræðslu, ráðgjöf og samtali á mismunandi aldursstigum til að undirbúa starfslokin. Eldra starfsfólk hefur mikla þekkingu á vörum og þjónustu fyrirtækisins og getur með því veitt verðmæta ráðgjöf og framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.
Bergrún L. Sigurjónsdóttir, mannauðsstjóri Vinnueftirlitsins, fór yfir stefnu um sveigjanleg starfslok þar sem fólki býðst aukið valfrelsi við starfslok, enda geti verið verðmætt að byggja á reynslu þeirra sem eldri eru og brúa bil milli kynslóða. Einnig er lögð áhersla á að kveðja starfsfólk við lok starfsævinnar sé jafnmikilvægt og að taka vel á móti því í upphafi starfs enda sé heilbrigð vinnustaðamenning, sem leggur áherslu á vellíðan og öryggi starfsfólks, lykillinn að árangri vinnustaða.
Við mælum með að fólk kynni sér málið og sé vel upplýst um réttindi sín. Hver eru réttindi þín hjá lífeyrissjóðum?
Kíktu á Lífeyrisgáttina
Upplýsingar um ellilífeyri, skiptingu hans og umsóknir má finna á vefsíðu okkar. Við mælum með að hver og einn kynni sér málið hjá sínum lífeyrissjóði og hægt er að panta tíma í ráðgjöf hja lífeyrissjóðunum.
Nánar um Ellilífeyri