Þótt löndin fimm eigi það sameiginlegt að blanda saman gegnumstreymis- og sjóðsöfnunarkerfum, með megináherslu á stoðir 0, 1 og 2, er samanburður ekki einfaldur, því að útfærslurnar eru mismunandi í ýmsum efnum. Hér verður farið yfir helstu einkennin og frávikin. Ítarlegar lýsingar á kerfunum er að finna í viðaukum með þessari samantekt.
Land | Opinbert kerfi | Söfnunarkerfi |
Bretland | 65% | 35% |
Danmörk | 56% | 44% |
Holland | 59% | 41% |
Ísland | 26% | 74% |
Svíþjóð | 85% | 15% |
Tafla 3 sýnir mismunandi hlutdeild kerfanna í útgreiðslu elli- og eftirlifendalífeyris og ólíkt vægi sjóðsöfnunar. Nýrri tölur hafa ekki verið birtar hjá OECD. Ætla má að hlutur söfnunarkerfa hafi verið óvenju hár á Íslandi árið 2011 þar sem tímabundnar heimildir voru í gildi um útgreiðslu séreignarsparnaðar til þeirra sem ekki höfðu náð 60 ára aldri. Til samanburðar má nefna að samkvæmt gögnum frá Tryggingastofnun og Fjármálaeftirlitinu um lífeyrisgreiðslur á árinu 2015 var hlutur opinbera kerfisinsum 34% og söfnunarkerfanna um 66%.
Í öllum löndunum er opinbera lífeyriskerfið öryggisnet fyrir láglaunafólk og þá sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér mikinn lífeyrisrétt í starfstengdum lífeyrissjóðum. En með auknum lífeyrisréttindum eða öðrum tekjum skilur á milli Íslands og hinna landanna fjögurra. Á Íslandi er þróunin sú að vaxandi hlutfall fólks mun fá allan ellilífeyri frá starfstengdum lífeyrissjóðum og engan lífeyri úr opinbera kerfinu. Ekkert hinna landanna gengur svo langt. Ísland er eina landið innan OECD þar sem stærstur hluti lífeyris kemur frá lífeyrissjóðum.
Bæði OECD og Evrópusambandið mæla með að lífeyriskerfi sé byggt á þremur stoðum og á Íslandi hefur sú leið verið farin. OECD mælir þó með að starfstengdu lífeyrissjóðirnir, stoð 2, séu viðbót við opinbera kerfið en komi ekki í stað þess. OECD rökstyður þessa afstöðu m.a. með því að stoðirnar séu misviðkvæmar fyrir ytri áföllum eða breytingum í umhverfi, t.d. lýðfræðilegri dreifingu og sveiflum á verðbréfamarkaði, og hið opinbera sé betur í stakk búið til að taka á slíkum aðstæðum og áhættuskiptingu milli kynslóða.
Land | Sjóðsöfnun í % af VLF | Lífeyrissjóðir | Tryggingafélög | Annað |
Bretland | 97% | 97% | *) | |
Danmörk | 206% | 45% | 138% | 23% |
Holland | 178% | 178% | ||
Ísland | 158% | 178% | ||
Svíþjóð | 76% | 9% | 64% | 3% |
*) Tölur vantar um sjóðsöfnun tryggingafélaga í Bretlandi en áætlað er að þar bætist við 30-40% af VLF.
Öll löndin fimm eru meðal níu efstu landa heims þegar raðað er eftir vægi sjóðsöfnunar af landsframleiðslu, samkvæmt útreikningum OECD.
Tekjutengingar eru ólíkar í löndunum fimm:
Í löndunum fimm er einnig ólík sýn á samspil stoðanna:
Þrátt fyrir ólíka stefnu um hver stoðanna eigi að gegna kjarnahlutverki á það þó við í öllum löndunum að með hækkandi tekjum á starfsævinni vex hlutfall lífeyris sem vænta má frá starfstengdu sjóðunum. Þannig fær hátekjufólkið stærri hluta lífeyri síns frá sjóðum, en lágtekjufólk fær mestan hluta lífeyris síns frá opinbera kerfinu.
Misjafnt er hvaða áfalla- og eftirlifendalífeyrir er innifalinn í lífeyrisréttindum. Löndin fimm hafa hvert sinn háttinn á í þessum efnum, eins og taflan sýnir:
Land | 0-stoð (greitt af skatttekjum) | 1. stoð (iðgjöld til opinbers kerfis) | 2. stoð (starfstengdir sjóðir) |
Bretland | Innifalinn | Sjaldan innifalinn | |
Danmörk | Innifalinn | Innifalinn | Valkvæður |
Holland | Sérstök iðgjöld | Yfirleitt innifalinn | |
Ísland | Innifalinn | Innifalinn | |
Svíþjóð | Innifalinn | Innifalinn | Valkvæður |
Látist einstaklingur eða verði öryrki áður en ellilífeyristökualdri er náð er talað um áfallalífeyri og er hann þá greiddur öryrkjanum eða eftirlifandi maka og börnum (upp að tilteknum aldri). Eftir að ellilífeyristaka hefst er talað um eftirlifendalífeyri sem rennur til maka og barna (upp að tilteknum aldri). Í tölum OECD um ellilífeyri er eftirlifendalífeyrir talinn með.
Í Svíþjóð taka ofangreind lífeyrisréttindi mið af áunnum ellilífeyrisrétti í 1. stoðinni, en ef sá réttur er lítill eða enginn, er greiddur lágmarkslífeyrir úr 0 stoðinni.
Í Bretlandi, Danmörku og á Íslandi eru öll lífeyrisiðgjöld upp að vissri prósentu frádráttarbær frá tekjuskattstofni.
Í Svíþjóð er fjárhæðarþak á iðgjöldum til réttindaávinnslu í opinbera kerfinu. Launþegi greiðir 7% af launum upp að þakinu. Vinnuveitandi greiðir hins vegar 11,5% af heildarlaunum og það sem er umfram fjárhæðarþakið telst þá til almennra skatta. Öll iðgjöld til starfstengdra sjóða eru frádráttarbær.
Í Hollandi er þak á skattfrádrætti iðgjalda, annars vegar miðað við að réttindaávinnsla nemi að hámarki 1,875% af launum ársins og hins vegar að ekki fáist frádráttur út á þann hluta launa sem er umfram rúmar 100.000 EUR á ári (nánar tiltekið 101.519 EUR árið 2016). Samspil við ávinnslu réttinda til grunnlífeyris úr opinbera kerfinu (sem er föst fjárhæð, óháð tekjum) leiðir til þess að láglaunafólk greiðir lága viðbótarprósentu í starfstengdan sjóð en hátekjufólk greiðir hærri prósentu.
Þrjú landanna, Bretland, Holland og Ísland fylgja sömu meginreglunni um skattalega meðferð lífeyrissparnaðar, þ.e. að iðgjöld og ávöxtun lífeyrissjóða eru undanþegin skattlagningu en útgreiddur lífeyrir ber skatt (e. EET). Í Danmörku eru iðgjöld án skatts, en ávöxtun lífeyrissjóða ber rúmlega 15% fjármagnstekjuskatt og lífeyrir ber tekjuskatt (e. ETT) Í Svíþjóð er ávöxtun í opinbera sjóðsöfnunarkerfinu (premiepension) skattfrjáls, en reiknuð viðmiðunarávöxtun í öðrum sjóðum ber 15% fjármagnstekjuskatt.
Í öllum löndunum er veitt fjárhagsaðstoð til framfærslu ef lífeyrir nær ekki tilteknu viðmiði, t.d. vegna stopullar atvinnuþátttöku eða skammrar búsetu í landinu. Yfirleitt er þetta á verksviði sveitarfélaga. Í þessari samantekt er leitast við að halda slíkri aðstoð utan við útreikninga.