Örorkulífeyrir

Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri úr samtryggingarsjóði ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er a.m.k. 50% (hjá sumum sjóðum 40%) og hefur orðið fyrir tekjuskerðingu.  

Örorkulífeyrir er miðaður við áunnin lífeyrisréttindi og framreiknuð réttindi.

  • Á ég rétt á greiðslum ef ég slasast eða veikist alvarlega?

    Ef þú hefur slasast eða veikst og tapað starfsorku sem veldur tekjuskerðingu getur þú átt rétt á lífeyri.

    Miðað er við að starfsorkumissir sé a.m.k. 50% (hjá sumum sjóðum 40%) og að greitt hafi verið í lífeyrissjóð í tvö ár eða lengur.

    Fyrstu þrjú árin tekur orkutap sjóðfélaga mið af því starfi sem aðild hans að lífeyrissjóði tengist. Eftir það er tekið mið af starfsgetu til allra almennra starfa, þótt hann geti ekki unnið það starf sem hann stundaði fyrir veikindin eða slysið. Því fellur örorkuréttur niður ef sjóðfélagi er fær um að vinna öll almenn störf.

    Réttur til örorkulífeyris getur verið háður því skilyrði að sjóðfélagi fari í starfsendurhæfingu. Á þetta jafnt við í upphafi örorku og við síðara endurmat.

  • Hvað get ég fengið mikinn örorkulífeyri ef ég get ekki unnið vegna veikinda eða slyss?

    Upphæð örorkulífeyris fer eftir þeim réttindum sem sjóðfélagi hefur áunnið sér. Sjóðfélagar geta átt rétt til viðbótarréttinda sem byggjast á þeim greiðslum sem þeir hefðu áunnið sér ef þeir hefðu getað greitt iðgjöld allt til ellilífeyrisaldurs.

    Þau réttindi sem sjóðfélagi fær til viðbótar áunnum réttindum eru kölluð framreiknuð réttindi. Til að eiga slíkan rétt þarf sjóðfélagi að hafa greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili fyrir orkutap.

    Framreikningsréttur er háður því að ekki megi rekja missi starfsorkunnar til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Ef sú er raunin miðast fjárhæð örorkulífeyris við áunnin réttindi.

  • Hversu lengi er örorkulífeyrir greiddur úr lífeyrissjóðum?

    Örorkulífeyrir er greiddur þar til ellilífeyrisaldri er náð, en þá breytist hann í ellilífeyri. Örorkulífeyrir fellur þó niður ef sjóðfélagi nær starfsorku á ný eða verður ekki fyrir tekjuskerðingu af völdum skertrar starfsorku.

  • Fæ ég jafnframt örorkulífeyri úr almannatryggingakerfinu?

    Almannatryggingar greiða einnig örorkulífeyri. Sjá nánar heimasíðu Tryggingastofnunar tr.is  Örorkulífeyrir almannatrygginga getur haft áhrif á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum. Við útreikning á því hvort sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum skertrar starfsorku er tekið tillit til atvinnutekna, greiðslna frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna greiðslna.

  • Fá börnin okkar lífeyri ef við veikjumst alvarlega eða verðum fyrir slysi?

    Já. Upphæð barnalífeyris er almennt ekki háð launum sjóðfélagans heldur er hún föst fjárhæð sem breytist í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs. Ef sjóðfélaginn fær örorkulífeyri má hann ásamt barnalífeyri aldrei vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.

  • Get ég fengið örorkulífeyri úr lífeyrissjóðnum mínum ef ég þarf að vera frá vinnu vegna veikinda í fjölskyldunni?

    Nei.

  • Fæ ég örorkulífeyri greiddan úr lífeyrissjóði ef ég verð ekki fyrir tekjuskerðingu af völdum örorkunnar?

    Nei, það er skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu vegna slyss eða langvarandi veikinda. Við útreikning tekjumissis er tekið tillit til atvinnutekna, greiðslna frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna greiðslna.