Lífeyrissjóðurinn minn

Lífeyrissjóðurinn þinn gegnir þrenns konar hlutverki fyrir þig:

  • Af hverju þarf ég að greiða í lífeyrissjóð?

    Á Íslandi er skyldubundið samtryggingarkerfi. Samkvæmt því eiga allir launamenn og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur frá 16 til 70 ára aldurs að greiða iðgjald í lífeyrissjóð sem nemur 4% af heildarlaunum.

    Launagreiðandi þinn greiðir að lágmarki á móti þér 11,5% af heildarlaunum þínum. 

    Sjóðfélagar teljast allir þeir einstaklingar sem greiða eða hafa greitt iðgjald til viðkomandi lífeyrissjóðs.

    Tilgangur lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum ellilífeyri til æviloka auk þess að verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku (örorku- og barnalífeyrir) og andláts (maka- og barnalífeyrir).

    • Get ég valið lífeyrissjóð?

      Í einhverjum tilfellum er hægt að velja um lífeyrissjóð en það fer eftir kjarasamningum og/eða sérlögum ef við á.

  • Hversu mikið er greitt í lífeyrissjóð?

    Samkvæmt lögum ber að greiða að lágmarki 15,5% í lífeyrissjóð (4% + 11,5%).

    Að auki kjósa margir að greiða í viðbótarlífeyrissparnað 2% eða 4% og fá þá 2% framlag frá atvinnurekanda.

  • Get ég valið mér lífeyrissjóð?

    Aðild að lífeyrissjóði fer eftir viðkomandi kjarasamningi og/eða sérlögum ef við á. Ef kjarasamningur þinn tekur ekki til viðkomandi starfssviðs eða ef ráðningarsamningur þinn er ekki byggður á kjarasamningi getur þú valið þér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.

    Reglur einstakra lífeyrissjóða leyfa ekki aðild hvers sem er. Þannig er því til dæmis varið með lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

    Hér eru upplýsingar um alla lífeyrissjóði 

  • Hver er ávinningurinn af því að greiða í lífeyrissjóð?

    • Ellilífeyrir til æviloka.
    • Örorku- og barnalífeyrir ef sjóðfélagi missir starfsgetu og verður fyrir sannanlegum tekjumissi vegna veikinda eða slyss.
    • Maka- og barnalífeyrir er greiddur til maka og barna við fráfall sjóðfélaga.
    • Möguleiki á hagstæðum lánum.
  • Er ég skyldug/ur til að greiða í lífeyrissjóð?

    Já, samkvæmt lögum er öllum launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Skylduaðildin varir frá sextán ára aldri til sjötugs.

  • Þarf ég að gera eitthvað þegar ég byrja að greiða í lífeyrissjóð?

    Kynntu þér:

    • Hvernig réttindi byggjast upp í lífeyrissjóðnum þínum og hver þau verða við starfslok?
    • Hvaða örorkulífeyri þú færð greiddan ef þú verður óvinnufær vegna slyss eða sjúkdóms?
    • Hvaða lífeyrir verður greiddur til þinna nánustu ef þú fellur frá?

    Hér er myndband sem sýnir hvernig hægt er að nálgast upplýsingar um öll réttindi í samtryggingu hjá lífeyrissjóðum. 

  • Hver hefur eftirlit með lífeyrissjóðsgreiðslum?

    Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt með því að bera upplýsingar frá lífeyrissjóðunum um innborguð iðgjöld saman við upplýsingar um greiðslur til lífeyrissjóða sem fram koma í skattframtali launamanna og sjálfstæðra atvinnurekenda.

    Lífeyrissjóðirnir birta almennt yfirlit um iðgjaldagreiðslur rafrænt á sjóðfélagavef (mínum síðum) og/eða í rafrænu póstihólfi á island.is

    Þeir sem óska geta fengið yfirlit send heim í bréfapósti með því að senda tölvupóst á viðkomandi lífeyrissjóð. 

    Sjóðfélagar eiga að fylgjast með því að tilskilin iðgjöld séu greidd af launum þeirra. Til þess að iðgjöld launamanns njóti ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa við gjaldþrot verða launamenn að ganga úr skugga um skil launagreiðandans til lífeyrissjóðsins innan 60 daga frá dagsetningu yfirlitsins.

    Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlitið er mikilvægt að það sé tilkynnt sjóðnum með framlagningu launaseðla innan 60 daga.

    Lífeyrisréttindi grundvallast aðeins á iðgjöldum sem fást greidd.

  • Þarf ég að fylgjast með að launagreiðandi minn greiði iðgjöld til lífeyrissjóðsins?

    Lífeyrissjóðir birta almennt yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur á sjóðfélagavef (mínum síðum) og/eða stafrænu pósthólfi á island.is

    Hægt er að óska eftir að fá yfirlit sent í bréfapósti með því að senda tölvupóst á viðkomandi lífeyrissjóð. 

    Berðu yfirlitið saman við launaseðla. Vanti greiðslur skaltu hafa samband við launagreiðanda og óska eftir skýringum eða hafa samband við lífeyrissjóðinn og óska eftir að sjóðurinn innheimti vangoldin iðgjöld.

    Lífeyrisréttindi grundvallast á iðgjöldum sem fást greidd.

  • Þarf ég nokkuð að mæta á fundi og námskeið hjá lífeyrissjóðnum mínum? Er ekki betra að nota tímann í eitthvað annað?

    Mættu á ársfundi og fylgstu með rekstri og afkomu sjóðsins. Þetta eru mikilvæg réttindi og það þarf að líta eftir þeim eins og öðrum eignum. Sumir lífeyrissjóðir bjóða sjóðfélögum sínum einnig að sækja námskeið um lífeyrismál. Það getur verið mjög gagnlegt að sækja slík námskeið til að fræðast um lífeyrismálin og vera þannig betur í stakk búinn til að meta hvort réttindin séu nægjanleg.

  • Ég man ekki í hvaða lífeyrissjóði ég hef greitt um ævina. Er hætta á að einhverjar greiðslur týnist eða fyrnist?

    Réttindi glatast ekki þótt yfirlit yfir greiðslur tapist.

    Hér er myndband sem sýnir hvernig þú getur nálgast réttindi hjá öllum lífeyrissjóðum Lífeyrisgáttin.

    Ef þú manst ekki eftir neinum lífeyrissjóði sem þú hefur greitt til getur þú hringt í síma 5636400 eða sent fyrirspurn á lifeyrir@greidslustofa.is 

  • Í hvaða tilfellum geta erlendir ríkisborgarar fengið iðgjöld endurgreidd við brottflutning frá Íslandi?

    Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997 er heimilt að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara við brottflutning frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. 

    Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki sem hér verða nefnd samningsríki. Samningsríkin eru Bandaríkin, Kanada, Bretland og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin. Jafnframt er til staðar samningur milli Íslands og Bretlands.  

    • EFTA ríkin eru Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss vegna aðildar sinnar að Vadus samningi við EFTA ríkin. 
    • ESB ríkin eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland, Þýskaland.

    Sá sem er með ríkisborgararétt í samningsríki, getur ekki sótt um endurgreiðslu iðgjalda vegna brottflutnings frá Íslandi. Ef einstaklingur er með ríkisfang í tveimur eða fleiri löndum er ekki heimilt að endurgreiða iðgjöld nema bæði eða öll ríkisföng séu utan samningsríkja.

    Samningur við Bretland um réttindi á sviði almannatrygginga tók gildi 1. janúar 2024.

    Samningar á milli landa nánar á heimasíðu tr.is 

     

     

     

    • Hvaða áhrif hefur Brexit á breska ríkisborgara sem eiga réttindi hjá lífeyrissjóðum á Íslandi?

      •  Áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðum á Íslandi fyrir Brexit eru geymd réttindi hjá lífeyrissjóðunum og greiðast út samkvæmt þeim lögum sem giltu til 1. janúar 2021 þ.e. fyrir útgöngu (það var gerður útgöngusamningur milli Íslands og Bretlands sem tók á þessu) - sjá nánar hér 
      • Áunnin réttindi hjá breskum ríkisborgurum eftir 1. janúar 2021 er hægt að sækja um að fá greitt út, þar sem Bretland er ekki lengur hluti af EES samningnum.