Viðbótarlífeyrissparnaður

Launamenn og sjálfstæðir atvinnurekendur hafa val um að greiða allt að 4% af heildarlaunum sínum til viðbótar við venjulegt skylduiðgjald.
Hann er einnig hægt að nýta til að auðvelda kaup á fyrstu íbúð.

 

  • Hvar finn ég yfirlit um viðbótarlífeyrissparnað?

    Það eru ekki til miðlægar upplýsingar um hvað fólk á í viðbótarlífeyrissparnaði. Hægt er að senda fyrirspurn á vörsluaðila og kanna hvort viðbótarlífeyrissparnaður sé til staðar. Netföng hjá vörsluaðilum á Íslandi eru hér:

    almenni@almenni.is; birta@birta.is ; festa@festa.is ; frjalsi@frjalsi.isgildi@gildi.is ; lsr@lsr.is ; skrifstofa@live.is ; skrifstofa@lsv.is ; lifsverk@lifsverk.is ; stapi@stapi.is ; sl@sl.isarionbanki@arionbanki.islandsbankinn@landsbankinn.is; sereign@islandsbanki.is; allianz@allianz.is ; thjonusta@kvika.is ; sparnadur@sparnadur.istplus@tplus.is 

  • Er hægt að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða niður sjóðfélagalán?

    Í gildi er tímabundin heimild til 31. des. 2024 til að greiða viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán, 500 þúsund kr. á ári fyrir einstakling og 750 þúsund fyrir hjón og sambúðarfólk. 

    Við kaup á fyrstu íbúð geta einstaklingar notað viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á húsnæðislán eða nýtt það sem útborgun. Þeir geta einnig farið blandaða leið.

    Hámarksfjárhæð á hvern einstakling á ári er 500 þúsund.

    Heimilt er að nýta viðbótarlífeyrissparnað við kaup á fyrstu íbúð í samfleytt 10 ár.

    Sótt er um hér skattur.is 

  • Hvaða skattareglur gilda um viðbótarlífeyrissparnað?

    Sömu skattareglur gilda um iðgjöld vegna viðbótarlífeyrissparnaðar og í lífeyrissjóð, þ.e. iðgjöld eru frádráttarbær frá skattstofni en lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og hverjar aðrar atvinnutekjur. Lífeyrisþegar geta því nýtt sér persónuafslátt til að lækka skattana.
    Framlag launagreiðenda er frádráttarbært frá skattskyldum tekjum fari það ekki umfram 12% af launum auk tveggja milljóna.

  • Hverjir eru helstu kostir viðbótarlífeyrissparnaðar?

    • Viðbótarlífeyrissparnaður er séreign og er mikilvæg viðbót við almennan skyldulífeyrissparnað.
    • Þægilegur sparnaður, launagreiðandi sér um að greiða iðgjöldin.
    • Enginn fjármagnstekjuskattur er greiddur af vaxtatekjum.
    • Hægt að taka út við 60 ára aldur og hægt að taka inneignina út í einu lagi eða á lengri tíma að eigin vali.
    • Þú sparar allt að helmingi hraðar en með hefðbundnum sparnaði.
    • Langtímasparnaður þar sem vextir geta orðið meirihluti uppsafnaðs sparnaðar vegna áhrifa vaxtavaxta. 
    • Auðveldar fólki að hætta að vinna fyrir sjötugt og erfist að fullu.
    • Við andlát sjóðfélaga er innistæðunni, að viðbættum verðbótum og vöxtum, skipt á milli lögerfingja hans og hún greidd út samkvæmt ákveðnum reglum. 
    • Hægt er að grípa til viðbótarlífeyrissparnaðarins ef alvarleg slys eða veikindi verða til þess að draga úr starfsorku. Þá er lífeyrissparnaðurinn greiddur út eftir ákveðnum reglum.
    • Ef einstaklingur verður gjaldþrota geta kröfuhafar ekki gengið að viðbótarlífeyrissparnaði.
    • Tekjuskattur er greiddur þegar inneignin er tekin út.
  • Er skynsamlegt að vera með viðbótarlífeyrissparnað?

    Já, tvímælalaust. Hann eykur hag og stuðlar að sveigjanleika við starfslok. Jafnframt er hægt að grípa til hans ef alvarleg slys eða veikindi draga úr starfsorku.

    Viðbótarlífeyrissparnaður er hagstæðasti sparnaður sem völ er á vegna mótframlags launagreiðanda sem almennt er samið um í kjarasamningum. Launagreiðendur greiða að jafnaði 2% af launum starfsfólks sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað þess, enda sé framlag launafólks a.m.k. 2%.

  • Hvernig nýtist viðbótarlífeyrissparnaður við kaup á fyrstu íbúð?

      • Fyrstu kaupendur geta notað viðbótarlífeyrissparnað til að spara fyrir útborgun, greiða inn á lán eða fara blandaða leið og greiða inn á lán og lækka greiðslubyrði óverðtryggðra lána.
      • Hámarksfjárhæð á hvern einstakling á ári er 500 þúsund. 
      • Heimilt er að nýta viðbótarlífeyrissparnað við kaup á fyrstu íbúð í samfleytt 10 ár.
      • Sótt er um á vefsíðu Skattsins skattur.is 
      • Rétthafi viðbótarlífeyrissparnaðar sem hefur ekki verið eigandi að íbúðarhúsnæði, síðastliðin fimm ár, er einnig heimilt að nýta sér úrræði laga nr. 111/2016 að uppfylltum öðrum skilyrðum þeirra. 
  • Hvar get ég samið um viðbótarlífeyrissparnað?

    Gera verður samning við vörsluaðila lífeyrissparnaðar sem geta verið lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og líftryggingafélög. Ekki er nóg að óska eftir því við launagreiðanda að hefja greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað heldur þarf að gera samning.

    Ef launamaður skiptir um vinnu er mikilvægt að hafa samband við vörsluaðila lífeyrissparnaðarins og gera nýjan samning.

     

  • Hvaða reglur gilda um viðbótarlífeyrissparnað?

    Launamenn og sjálfstætt starfandi geta greitt allt að 4% af heildarlaunum sínum sem viðbótariðgjöld til lífeyrissparnaðar. Í flestum kjarasamningum er samið um að launagreiðendur greiði 2% af launum starfsmanna sinna sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað þeirra, enda sé framlag launamanns a.m.k. 2%. Nánar um viðbótarlífeyrissparnað. 

  • Er munur á því hvar best er að geyma viðbótarlífeyrissparnaðinn?

    Veldu vörsluaðila af kostgæfni. Vörsluaðilar bjóða almennt upp á margar ávöxtunarleiðir með mismunandi fjárfestingarstefnu.

    Mikilvægt er að kynna sér málin vel áður en ákveðið er hvar ávaxta á viðbótarlífeyrissparnaðinn. Einnig er afar brýnt að fá upplýsingar um allan kostnað (upphafskostnað, rekstrarkostnað, eignastýringarkostnað).

    Ef þú ert óánægður með þjónustu og fjárfestingarárangur getur þú fært þig á milli vörsluaðila. Slíkt kann þó að fela í sér kostnað og því enn mikilvægara að kynna sér málin frá upphafi.

  • Duga lífeyrissjóðsgreiðslur til að tryggja óbreyttar tekjur við starfslok? Þarf ég að spara meira til eftirlaunaáranna?

    Lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum duga sjaldnast til að halda óbreyttum launum eftir að vinnu lýkur. Því er æskilegt fyrir alla að leggja aukalega fyrir og er viðbótarlífeyrissparnaður hagkvæmasti sparnaðurinn til að bæta við eftirlaunin

  • Erfist viðbótarlífeyrissparnaður?

    Viðbótarlífeyrissparnaður sem greiddur er í séreignarsjóð rennur að fullu til eftirlifandi maka og barna. 

    Hér má finna upplýsingar um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Það eru ekki til miðlægar upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað þess vegna þarf að senda tölvupóst á alla vörsluaðila ef ekki liggur fyrir hvar sparnaðurinn er. 

  • Get ég notað séreignarsjóðinn ef starfsorka mín skerðist eða ég verð atvinnulaus?

    Hefja má úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði í séreign þegar 60 ára aldri er náð og má þá taka hann út í einu lagi. Hægt er að dreifa greiðslunum ef sjóðfélagi óskar þess. Við fráfall sjóðfélaga er heimilt að fá eingreiðslu. Við örorku er greiðslum dreift yfir lengri tíma. Þó er heimilt að greiða út í eingreiðslu ef fjárhæðin er lág.

  • Hefur viðbótarlífeyrissparnaður áhrif á ellilífeyri almannatrygginga?

    Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði hafa ekki áhrif á ellilífeyri frá almannatryggingum (TR) en geta haft áhrif á greiðslur örorkulífeyris frá TR. 

  • Hvenær má ég taka viðbótarlífeyrissparnaðinn út?

    Töku viðbótarlífeyris má hefja þegar 60 ára aldri er náð og má þá taka hann út í einu lagi. Hægt er að dreifa greiðslunum ef sjóðfélagi óskar þess. Heimilt að greiða lífeyrissparnaðinn út í eingreiðslu við fráfall sjóðfélaga. Við örorku er greiðslum dreift yfir lengri tíma. Þó er heimilt að greiða út í eingreiðslu ef fjárhæðin er lág.

  • Þarf ég að sækja um töku lífeyris úr séreignarsjóði eða hefjast greiðslur sjálfkrafa þegar tilskildum aldri er náð?

    Sækja þarf um útgreiðslu á viðbótarlífeyrissparnaði í séreign. Heimilt er að hefja úttekt við 60 ára aldur og má þá fá eingreiðslu eða skipta greiðslum.