Þann 11. mars síðastliðinn birtist á Kjarnanum grein eftir Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, Snædísi Ögn Flosadóttur, framkvæmdastjóra EFÍA og LSBÍ og Þröst Sigurðsson, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Rangæinga, sem bar yfirskriftina "Upplýsingagjöf lífeyrissjóða".
Í greininni fara höfundar yfir hvar finna megi helstu upplýsingar um lífeyrissjóðina og hvaða upplýsingar það séu sem þar sé hægt að nálgast. Vefsíður sjóðanna eru þar nefndar sem dæmi, opinberir aðilar eins og Fjármálaeftirlitið og vefsíðan Lífeyrismál.is en þar er meðal annars birt samantekt á ávöxtun séreignardeilda lífeyrissjóðanna sl. 5 og 10 ár og þar er hægt að nálgast fréttir og ýmsar fræðslugreinar um lífeyrismál. Sjóðfélagayfirlitin, sem sjóðirnir senda sjóðfélögum með reglulegu millibili, veita einnig greinargóðar upplýsingar og samfélagsmiðlarnir gegna sífellt stærra hlutverki.
Þrátt fyrir þá miklu og jákvæðu þróun sem orðið hefur á tækninni og rafrænni þjónustu benda greinahöfundar á að lífeyrissjóðirnir gleymi ekki mannlega þættinum og bjóði persónulega þjónustu og ráðgjöf á ýmsum sviðum. Fræðslufundir eru haldnir reglulega fyrir sjóðfélaga sem í einhverjum tilfellum er streymt um samfélagsmiðla til að sem flestir geti nýtt sér þá og starfsfólk sjóðanna er til þjónustu reiðubúið.