Tölur og gögn um lífeyriskerfið

Umræða um lífeyrismál á grundvelli staðreynda og gagna 

Innan Landssamtaka lífeyrissjóða (LL) hefur í nokkurn tíma verið unnið að því að bæta gagnaöflun og birtingu gagna um lífeyrismál á heimasíðu samtakanna. Lengi hefur verið starfandi hagtöluhópur á vegum LL sem hefur haft það hlutverk að safna saman og birta gögn um lífeyrissjóðina og lífeyrismál almennt. Á síðasta ári var Ásta Ásgeirsdóttir hagfræðingur ráðin sem nýr sérfræðingur hjá LL og tók hún við því verkefni að sjá um birtingu og uppfærslur á hagtölum lífeyrissjóðanna og vinna með hagtöluhópnum að þróun þessa málaflokks. Meðal þess sem hefur verið gert undanfarið ár er að uppfæra myndefni og talnagögn á heimasíðunni og bæta við lykiltölum og myndum á ensku fyrir erlenda aðila sem hafa áhuga á íslenska lífeyriskerfinu.

Gröf um lífeyrismál 

Á síðunni Tölur og gögn eru birt gröf um lífeyrismál eftir eftirfarandi flokkun.  

Linurit

  1. Eignir
  2. Lífeyrisgreiðslur og iðgjöld
  3. Ávöxtun og kostnaður
  4. Fasteignalán til heimila
  5. Fróðleiksmolar um lífeyrismál
  6. Erlendur samanburður

Facts and figures 

Einnig eru birt gröf á ensku heimasíðunni undir Facts and figures en þar er lögð áhersla á tölur og gögn sem gætu verið áhugaverð fyrir sérfræðinga hjá erlendum stofnunum eða erlenda fræðimenn sem hafa áhuga á íslenska lífeyriskerfinu og vilja kynna sér það nánar. 

Gott aðgengi að tölulegum upplýsingum er forsenda þess að umræða um lífeyrismál fari fram á grundvelli staðreynda og gagna. Þær myndir sem birtar eru á heimasíðu LL undir Tölur og gögn eru hugsaðar til fróðleiks fyrir almenning og stofnanir og vonandi koma þær að gagni fyrir þá sem hafa áhuga á að grúska í þeim.