Stefán Halldórsson til Lífeyrissjóðs verkfræðinga.

Stefán Halldórsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga í haust. Stefán hefur verið framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands frá árinu 1995. Frá sama tíma hættir Jón Hallsson sem framkvæmdastjóri sjóðsins eftir áratuga farsælt starf.

Stefán Halldórsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga í haust. Stefán er fimmtugur að aldri og hefur verið framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands frá árinu 1995. Áður starfaði hann m.a. hjá Kaupþingi, bandaríska ráðgjafarfyrirtækinu Arthur D. Little Inc., Arnarflugi, Valhúsaskóla og Morgunblaðinu Hann lauk MBA-prófi í rekstrarhagfræði við Dartmouth College í Bandaríkjunum 1988 og BA-prófi í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands 1975. Lífeyrissjóður verkfræðinga er traustur framsækinn lífeyrissjóður með um 2200 sjóðfélaga. Sjóðurinn er opinn öllum verkfræðingum og einnig öðrum háskólamenntuðum mönnum, sem ekki tilheyra ákveðnum lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðurinn á um 10,3 milljarða til greiðslu lífeyris og hefur skilað mjög hárri ávöxtun undanfarin ár. Vöxtur sjóðsins á síðasta ári var um 38 %. Í tilkynningu frá stjórn Verðbréfaþings Íslands kemur fram að þekking Stefáns og dugnaður hafi skilað Verðbréfaþingi miklum árangri á þeim fimm árum sem hann hefur verið framkvæmdastjóri. "Framundan er það mikilvæga verkefni að ljúka samningum um aðild þingsins að NOREX - samstarfi norrænna kauphalla - og að tengja íslenska verðbréfamarkaðinn öflugu alþjóðlegu viðskiptakerfi. Stefán mun aðstoða við það verk þar til hann lætur af störfum. Verðbréfaþing stendur í mikilli þakkarskuld við Stefán fyrir heilladrjúg störf hans á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar á þeim nýja vettvangi sem hann hefur kosið sér." Landssamtök lífeyrissjóða bjóða Stefán velkominn til starfa og vænta mikils af honum, enda hefur Stefán yfirgripsmikla þekkingu á framþróun verðbréfamarkaðarins.