„Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda er að mörgu leyti venjulegur lífeyrissjóður og starfar sem slíkur en hefur líka vissa sérstöðu. Hann varð upphaflega til í fjármálaráðuneytinu vegna þess að lífeyrissjóð vantaði fyrir starfshópa sem höfðu ekki sjálfsagða aðild að neinum sjóði og "pössuðu ekki í kerfið". Sjóðurinn fékk því það hlutverk að „loka lífeyriskerfinu“ og fylla í eyður þess. Það er öðrum þræði hlutverk hans enn þann dag í dag.“
Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, er í hópi reynslubolta í lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og hefur verið á þessum starfsvettvangi frá útskrift úr Háskóla Íslands 1989. Hann hóf þá störf hjá Söfnunarsjóðnum og varð framkvæmdastjóri sjóðsins í októberbyrjun 1997 þrjátíu og tveggja ára gamall, yngstur manna til að gegna slíku starfi í lífeyrissjóði fyrr og síðar. Einungis Árni Guðmundsson hjá Gildi og Haukur Hafsteinsson hjá LSR geta státað af lengri starfsferli í framkvæmdastjórastóli lífeyrissjóðs. Sigurbirni þykir ekki slæmt að vera nefndur til sögu í hópi með þeim heiðursmönnum tveimur!
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda er áttundi stærsti lífeyrissjóður landsmanna með 14700 sjóðfélaga og eignir upp á um 150 milljarða króna. Hann var stofnaður 1974 þegar allt launafólk landsins var lögskyldað til að greiða í lífeyrissjóði. Upphaflega var hann ætlaður opinberum starfsmönnum sem ekki höfðu aðgang að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ríkisstarfsmönnum í tímabundnu starfi, ráðnum til reynslu áður en þeir fengu fastráðningu og fóru í B-deildina.
Sjóðurinn hét bókstaflega Biðreikningur lífeyrisiðgjalda, vistaður í fjármálaráðuneytinu og fyrsti framkvæmastjórinn var Jón Dan Jónsson, sem þá var að láta af störfum sem ríkisféhirðir. „Biðreikningurinn“ varð formlega Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 1981 og fór þá að taka líka við sjálfstætt starfandi fólki í ýmsum greinum. Sjálfstætt starfandi hafa alla tíð síðan þá verið fjölmennir í sjóðfélagahópnum.
Ýmsum gengur brösuglega að staðsetja Söfnunarsjóðinn í litrófi lífeyrissjóðakerfisins, vita vissulega um tilvist hans og hafa jafnvel greitt í hann um hríð en tengja hann ekki við ákveðið bakland líkt og unnt er að gera með svo marga lífeyrissjóði. Hvernig skilgreinir framkvæmdastjórinn sjálfur sjóðinn sinn?
„Við erum opinn sjóður líkt og til dæmis Almenni lífeyrissjóðurinn og Frjálsi lífeyrissjóðurinn en þar með lýkur samlíkingu við þá. Söfnunarsjóðurinn er nefnilega hlutlaus gagnvart bönkum og stéttarfélögum og er eini lífeyrissjóðurinn sem aldrei hefur þurft að skerða lífeyrisréttindi. Af því erum við auðvitað stolt.
Söfnunarsjóðurinn hefur tilgreint hlutverk í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Þar er kveðið á um að eignir lífeyrissjóðs, sem lendir í vandræðum og er skipuð slitastjórn, skuli renna til Söfnunarsjóðins. Á þetta ákvæði hefur reynt.
Hitt hlutverkið er veigameira. Á hverju hausti eru hjá embætti ríkisskattstjóra keyrðar saman upplýsingar um laun og reiknað endurgjald annars vegar og skrá um iðgjaldagreiðslur lífeyrissjóða hins vegar. Söfnunarsjóðnum er falið að innheimta iðgjöld hjá þeim sem hvergi hafa greitt í lífeyrissjóði og þessi hópur kann að skipta þúsundum ár hvert. Í honum eru jafnan margir einyrkjar.
Þannig er okkur ætlað að uppfylla lagaskyldu um að allir landsmenn með laun eða reiknað endurgjald greiði í lífeyrissjóð. Þetta á bara við um samtryggingarhlutann.
Svo get ég nefnt þá sérstöðu að Landssamtök lífeyrissjóða tilnefna fjóra af sjö stjórnarmönnum sjóðsins en fjármálaráðherra skipar alla stjórnarmennina, þrjá án tilnefningar. Mér er ekki kunnugt um að landssamtökin komi að stjórnarkjöri annarra lífeyrissjóða.“
– Þú nefnir að margir í sjálfstæðum atvinnurekstri, einyrkjarnir svokölluðu, láti hjá líða að greiða í lífeyrissjóði. Sjáið þið merki um að sjálfstætt starfandi geti á einhvern hátt haldið betur utan starfsemina til að hafa hlutina í lagi?
„Já, við verðum helst vör við að einyrkjar færa oft ekki rekstrarbókhald. Þeir færa þá með öðrum orðum ekki kostnað á móti tekjum og reikna sér ekki laun. Tekjurnar í heild koma fram sem laun og þá er gjarnan hvorki greitt tryggingagjald né iðgjald í lífeyrissjóð. Slíkt gengur auðvitað ekki. Einyrki verður auðvitað að halda utan um reksturinn hjá sér líkt og stór eða smá fyrirtæki sem að rekstri koma.“
– Söfnunarsjóðinn ber sjaldan eða kannski aldrei á góma í fjölmiðlafréttum vegna fjárfestinga af einhverju tagi. Er það tilviljun eða hver er skýringin?
„Sannast ekki bara þarna að engar fréttir eru góðar fréttir? Við erum vissulega varfærinn fjárfestir og tökum mjög alvarlega það hlutverk að fara gætilega með fjármuni sem fjöldi fólks byggir fjárhagslega afkomu sína á og ætlast til að vel og örugglega takist til með að ávaxta.
Söfnunarsjóðurinn hefur alla tíð verið frekar skuldabréfasækinn í fjárfestingum. Ávöxtun tryggra skuldabréfa var það góð á árum áður að hægt var að fjárfesta í löngum skuldabréfum sem gaf jafnvel betri ávöxtun en hlutabréf yfir löng tímabil. Að þessu býr sjóðurinn meðal annars.
Hlutabréfaáhætta sjóðsins er í erlendum hlutabréfasjóðum með varfærna fjárfestingarstefnu. Við erum lítið á ferð á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sá markaður er lítill, fá fyrirtæki og velta takmörkuð. Áhættan er mun meiri en á erlendum hlutabréfamarkaði. Varfærnin kom sér vel í efnahagshruninu.
Afkoma Söfnunarsjóðsins talar sínu máli. Við fljúgum ekki hátt þegar íslenski fjármálamarkaðurinn er á miklum snúningi en stöndum okkur betur eða jafnvel best þegar markaðurinn er erfiður. Við erum alltaf í úrvalsdeild með afkomuna en ekki alltaf meistarar!“
– Ýmsir velta því fyrir sér hvert stefni hjá okkur, hvort lífeyriskerfið vaxi jafnvel íslensku hagkerfi yfir höfuð og rúmist þar ekki þegar til lengri tíma er litið. Hvaða skoðun hefur þú á því?
„Mjög er horft til þess sem safnast fyrir í sjóðum kerfisins og allt gott um það að segja. Minna er litið til þess sem greitt er úr sjóðunum, sem nauðsynlegt er til að horft sé á myndina alla.
Núna greiðir lífeyrissjóðakerfið út yfir 100 milljarða króna á ári og nær fjórðungur fjármunanna eða um 25 milljarðar fara til ríkisins sem skattar. Kerfið er auðvitað gríðarlega stórt sem hlutfall af landsframleiðslu og ekki minnkar það við að mótframlag atvinnurekenda hækkar nú í áföngum.
Vitanlega er það ekki svo að allt safnist fyrir sem inn í kerfið berst, útgreiðslur stóraukast á næstu árum og áratugum. Fjölmennustu árgangar þjóðarinnar nálgast óðum lífeyristökualdurinn og útgreiðslur aukast sem því nemur.
Nei, lífeyriskerfið vex hagkerfinu ekki yfir höfuð. Ég lít frekar svo á að það þurfi að stækka til að standa við hlutverk sitt og erlend fjárfesting lífeyrissjóðanna skiptir þá miklu máli. Reyndar gleymist oft að ávöxtun lífeyris erlendis er beinlínis gjaldeyrisskapandi fyrir íslenskt þjóðarbú og jafngildir því að fá hingað fleiri erlenda ferðamenn eða hærra verð fyrir þorskinn í útlöndum.“
– Þú segir að Söfnunarsjóðurinn sé í úrvalsdeildinni hvað ávöxtun varðar. Verðið þið meistarar í ár?
„Of snemmt að segja, það hafa ekki allir sjóðir gefið upp afkomuna. Ég á samt ekki von á að við verðum meistarar í ár. Raunávöxtunin hjá okkur var 5,3% á árinu 2017 og við erum mjög stolt af því. Þá er þess að geta að við gerum upp skuldabréf á kaupávöxtunarkröfu en ef við gerðum skuldabréfasafnið upp á markaðsvirði hefði raunávöxtunin verið 8,1% í fyrra. Fjármálaeftirlitið heimilaði árið 2015 að hver lífeyrissjóður gæti ákveðið í samráði við endurskoðanda sinn hvort skuldabréf væru færð í reikning á kaupávöxtunarkröfu eða markaðsvirði. Það þykir mér ekki heppilegt því sjóðfélagar lenda í þeirri stöðu að bera saman ávöxtunartölur sem ekki eru sambærilegar, bera með öðrum orðum saman epli og appelsínur.
Ávöxtunarkapphlaup lífeyrissjóða frá ári til árs er svo sem ágætt til síns brúks en ég segi fullum fetum að ávöxtun til eins árs er marklaus mælikvarði. Ég tek hins vegar mark á 20 ára ávöxtun og þar flöggum við raunávöxtun upp á 4,4%, einni þeirri bestu sem við höfum séð. Þetta telst góður tími í langhlaupinu sem við erum alltaf í. Og já, ætli við séum ekki þarna mjög nálægt meistaratigninni!“