Með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna 2015 til 2030 settu öll þjóðríki heims sér 17 skilgreind markmið um að vinna gegn fátækt, vernda jörðina og stuðla að friði. Markmiðin höfða til þjóðríkja, fyrirtækja, fjárfesta og einstaklinga, á Íslandi og um allan heim. Markmiðið er m.a. að skapa viðnám gegn ójafnvægi í loftslagsmálum, vernda líffræðilegan fjölbreytileika, stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, sporna gegn mengun og félagslegu ójafnvægi.
Fjárfestar og alþjóðleg fyrirtæki spila stórt hlutverk varðandi Heimsmarkmiðin. Starfsemi þeirra er það víðtæk að þau hafa jafnvel jafnmikil eða meiri áhrif á efnahag, auðlindanýtingu og samfélagsmál en mörg þjóðríki. Starfsemin er þvert á heimsálfur, þjónustu og vöru, er dreift hvert á land sem er og fyrirtækin lúta lögsögu margra ríkja. Það er því ekki síður á færi fjárfesta en einstakra ríkja að stuðla að því að fyrirtæki virði grunnviðmið sjálfbærs rekstrar.
Vel rekin fyrirtæki horfa til langs tíma. Þrátt fyrir það líta þau gjarnan einnig til skemmri tíma, jafnvel ársfjórðunga, og gera áætlanir til nokkurra ára. Þetta leiðir m.a. af umhverfi fjármálamarkaða.
Hins vegar krefst náttúran, sem fyrirtæki starfa í, þess að horft sé til mun lengri tíma, áratuga og alda. Allt of fá fyrirtæki sjá hvata til þess í dag. Þetta bil þarf að brúa.
Stofnanafjárfestar þurfa almennt að horfa til langs tíma og skilgreina það í stefnum sínum. Í raun líta þeir þó oft til skammtímaárangurs. En síðustu ár hafa stórir alþjóðlegir stofnanafjárfestar, sem fara fyrir þúsundum milljarða bandaríkjadollara, í vaxandi mæli lagt áherslu á langtímasýn og aukna áherslu á sjálfbærni við eignastýringu og áhættustýringu. Sami taktur er sleginn af ýmsum alþjóða samtökum sem fjárfestar eiga aðild að.
Íslenskir stofnanafjárfestar, bankar, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og fjárfestingarsjóðir, eru hluti af alþjóðlega samfélagi fyrirtækja og fjárfesta. Á föstudaginn 25. september s.l. undirrituðu forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Að verkefninu standa einnig Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Landssamtök lífeyrissjóða og Samtök fjármálafyrirtækja.
Í yfirlýsingunni er lögð sameiginleg áhersla á mikilvægi fjármagns sem hreyfiafl í mótun atvinnu- og efnahagslífs og samfélagsins almennt. Nýting þess ráði miklu um samkeppnishæfni þjóða og framtíð komandi kynslóða. Hér gegni fjárfestar, fjármálafyrirtæki, stofnanir og ríkisstjórnir mikilvægu hlutverki. Í yfirlýsingunni kemur fram að sjálfbær þróun sé meðal undirstöðuatriða við fjárveitingar, fjárfestingar og útlánastarfsemi. Áhersla er lögð á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og viðmið sem íslensk stjórnvöld og fjárfestar hafa sett sér. Slíkar áherslur eru ekki síður mikilvægar nú í ljósi þess uppbyggingarstarfs sem fram undan er vegna efnahagsáhrifa COVID-19.
Yfirlýsingin og áskoranir sem hún fjallar um fela í sér stór tækifæri fyrir fjárfesta, rótgróin fyrirtæki og sprotafyrirtæki. Reynsla og rannsóknir sína að áhersla á sjálfbærni styður við trausta ávöxtun. Þá eru í nánustu framtíð fólgin stór nýsköpunar-, viðskipta- og atvinnutækifæri í því að mæta áskorunum sem liggja fyrir. Áskorunum sem felast í því að vinna gegn röskun og ójafnvægi milli grunnþátta sjálfbærni, þ.e. sjálfbærs efnahags, samfélagslegrar velsældar og sjálfbærrar auðlindanýtingar. Hér hafa m.a. stórfyrirtæki, stórir eignastýringaraðilar, Evrópusambandið, einstök ríki Bandaríkjanna og mörg þjóðríki boðað miklar fjárfestingar á komandi árum til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og skilvirkt hringrásarhagkerfi.
Viljayfirlýsingunni um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar verður fylgt eftir á fjölþættum vettvangi með upplýsingagjöf, skoðanaskiptum, fræðslu og öðrum hætti. Sjá nánar á vef Festu – miðstöðvar um samfélagábyrgð.
Tómas Njáll Möller er formaður Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð og yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Einnig situr hann í fastanefnd LL um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða.