Litast um í völundarhúsi tvísköttunar með Guðrúnu Jennýju sem leiðsögumann

Litast um í völundarhúsi tvísköttunar með Guðrúnu Jennýju sem leiðsögumann

Litast um í völundarhúsi tvísköttunar með Guðrúnu Jennýju sem leiðsögumann

Flytji fólk til Spánar til að verja þar efri árum skattleggja stjórnvöld þar í landi lífeyri þess úr almennum lífeyrissjóðum á Íslandi. Meginregla í tvísköttunarsamningum Íslands við önnur ríki er hins vegar sú að lífeyrir úr íslenskum lífeyrissjóðum sé skattlagður hér heima.

Í tvísköttunarsamningum við Spán, Frakkland og Portúgal er kveðið á um skattlagningu lífeyris í heimilisfesturíki, það er að segja þar sem fólkið býr sem lífeyrinn fær. Spánn er nefndur hér sérstaklega í inngangi, enda hið fyrirheitna land flestra sem halda utan til búsetu á efri árum.

Ráðlegt er að kynna sér efni hvers tvísköttunarsamnings sérstaklega þegar á þarf að halda en gefa sér alls ekki fyrir fram að samningur við tiltekið ríki sé samhljóða tvísköttunarsamningi við eitthvað annað ríki!

Þetta er gott að vita og meira að segja þarft að vita fyrir þá sem velta fyrir sér búsetu annars staðar á lokaskeiði ævinnar. Greinileg hreyfing er komin í þá átt á nýjan leik eftir að fjármagnshöft voru lögð af og efnahagslífið á Íslandi komst á fullan skrið eftir hrun og tilheyrandi samdráttarskeið.

Guðrún Jenný Jónsdóttir, sviðsstjóri alþjóðasamskipta hjá Ríkisskattstjóra, lifir og hrærist í málum er varða tvísköttunarsamninga og er hafsjór fróðleiks um hvað fólk á að gera eða hvað það á að varast þegar það flytur til Íslands eða frá Íslandi og vill komast hjá skattlagningu í tveimur ríkjum með tekjur sínar eða lífeyri.

Það stendur ekki á svari um hvað allir eiga að gera en fæstir hugsa um fyrr en þeir reka sig á eða lenda beinlínis í veseni í nýjum heimkynnum.

„Flestir flaska einfaldlega á því að leita upplýsinga áður en þeir flytja úr landi, sumir lenda í fjárútlátum og þurfa að bíða lengi eftir því að fá greitt til baka þar sem af þeim er ranglega tekið. Heimilisfestuvottorð frá Ríkisskattstjóra einfaldar til dæmis tilveruna ytra og hjálpar mikið. Þá getur fólk strax sýnt fram á að það sé heimilisfast á Íslandi í skilningi tvísköttunarsamnings við landið sem það flytur til.

Að jafnaði tekur þrjá daga að fá heimilisfestuvottorð hjá okkur og þykir sjálfsagt en í Bandaríkjunum þurfa menn að bíða í að minnsta kosti sex vikur eftir slíku vottorði. Eigi ég að nefna dæmi um enn hægari stjórnsýslu kemur upp í hugann mál er varðaði arðgreiðslu frá Ítalíu til Íslands. Viðtakandinn hafði ekki rétta pappíra til að sýna fram á að skattlagningin ætti að eiga sér stað á Íslandi. Ítalir skattlögðu arðinn og það tók hátt í einn áratug að fá leiðréttingu og endurgreiðslu!“ 

Mismunandi tvísköttunarsamningar

Ísland hefur tvísköttunarsamninga við yfir 40 ríki vítt og breitt í veröldinni, þar á meðal við öll ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu nema Austurríki. Fyrir liggja árituð samningsdrög við Austurríkismenn en málinu er ekki lokið. 

Tvísköttunarsamningar geta verið mismunandi en ákveðin meginregla er samt gegnumgangandi, að fyrirmynd frá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD.

Meginreglan í samningsfyrirmynd OECD er sú að heimilisfesturíkið hafi rétt til skattlagningar lífeyris og launa.

Meginreglan í íslensku samningsfyrirmyndinni er samt sú að upprunalandið skattleggi lífeyri. Í tvísköttunarsamningum við Spán, Frakkland og Portúgal samþykkja hins vegar íslensk stjórnvöld að þessi ríki hafi rétt til að skattleggja lífeyri, að undanteknum greiðslum sem eiga rætur að rekja til ríkissjóðs Íslands.

Segjum sem svo að Íslendingur flytji til Spánar og eigi lífeyrisréttindi bæði í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins annars vegar og einhverjum lífeyrissjóði á almenna markaðinum hins vegar. Spánska ríkið skattleggur þá eftirlaunin úr almenna lífeyrissjóðnum en íslenska ríkið skattleggur eftirlaunin frá LSR. Þetta er í samræmi við tvísköttunarsamning Íslands og Spánar.

  •  Þegar fólk segist fá meira fyrir eftirlaunin sín til dæmis á Spáni er ekki síst vísað til þess að lífeyrir er verulega minna skattlagður þar en á Íslandi. Sjálft skatthlutfallið er lægra þar en hér. 

Norrænar lífeyrisgreiðslur forskráðar í framtöl í fyrsta sinn

Norræn samskipti á sviði skattamála eru kapítuli út af fyrir sig, sem og á mörgum öðrum sviðum. Skattkerfin á Norðurlöndum eru lík og samskipti yfirvalda skattamála mikil og náin. Á vefnum nordisketax.net er að finna upplýsingar og svör við algengum spurningum um skattlagningu, einkum sniðnar að þeim sem búa í einu norrænu landi en eru með tekjur eða eignir í öðru norrænu landi.

Þeir sem finna ekki það sem að er leitað á nordisketax.net geta sent inn fyrirspurnir á íslensku á vefnum. Hafi fulltrúar íslenskra stjórnvalda ekki sjálfir svör á reiðum höndum þýða þeir fyrirspurnina á viðkomandi norrænt tungumál og senda til þeirra sem gerst þekkja til umfjöllunarefnisins.

Greiðslur til Íslendinga úr lífeyris- eða tryggingakerfum í öðrum löndum eru framtalsskyldar hér þrátt fyrir að af þeim hafi verið greiddur skattur ytra. Í fyrsta sinn gerðist það núna í ár að embætti Ríkisskattstjóra tókst að fá upplýsingar um lífeyrisgreiðslur annars staðar á Norðurlöndum nógu tímanlega til að geta forskráð tölurnar á framtalseyðublöð vegna ársins 2016.

Önnur norræn skattstjóraembætti fengu hliðstæðar upplýsingar frá Íslandi til að forskrá í framtöl á sínum vegum ytra.

„Breytingin sparar gríðarlegan tíma fyrir bæði okkur og framteljendur sjálfa. Við lítum á þetta sem mikilvæga þjónustu. Áður var verið að safna upplýsingum og fara yfir þær langt fram eftir ári. Nú gengur þetta fyrir sig sjálfkrafa en þó þannig að fólk getur leiðrétt tölurnar í framtalinu, ef þörf krefur, og látið þá fylgja skýringar með,“  segir Guðrún Jenný. 

Hikum ekki við að leita upplýsinga!

„Við lítum fyrst og fremst á forskráðar upplýsingar frá öðrum norrænum ríkjum sem stóraukna og mikilvæga þjónustu sem við veitum og viljum veita.

Alla daga upplýsum við og útskýrum. Fólk á ekki að hika við að hafa samband við Ríkisskattstjóra í tölvupósti eða símleiðis ef það fær ekki svör við spurningum sínum annars staðar, hvort sem erindið er vegna flutnings úr landi eða flutnings til Íslands.

Ef menn eru að flytja til lands utan Evrópu ráðlegg ég viðkomandi eindregið að ráðfæra sig við Tryggingastofnun Íslands og Sjúkratryggingar Íslands. Það á ekki síst við um eldri borgara.

Hingað flytja auðvitað margir til að vinna um skeið eða setjast að til frambúðar, bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar. Við upplýsum erlent verkafólk um að það eigi rétt á persónuafslætti, að því sé skylt að borga í íslenska lífeyrissjóði og draga iðgjöldin frá tekjuskattsstofni við framtal til skatts. Hreint ekki er sjálfgefið að allir átti sig á því að iðgjöldin skapi þeim lífeyrisréttindi hvar svo sem þeir búa þegar þar að kemur.“

Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Ríkisskattstjóra