Á fundi sem LL stóð fyrir í vikunni kynnti Már Guðmundsson fyrrverandi seðlabankastjóri helstu atriði skýrslu sem hann vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og gefin var út í febrúar 2022 og nefnist Takmarkanir á gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða.
Í skýrslunni eru gerðar tillögur um breytingar sem Már fór yfir og lagðar voru til grundvallar í fyrirliggjandi lagafrumvarp sem fjallar um útfærslu á því hvernig rýmkun á heimildum sjóðanna á eignum í erlendri mynt yrði innleidd á næstu árum.
Í lagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að rýmkun verði gerð í áföngum og yfir langt tímabil en fram kom í pallborðsumræðum að fulltrúar lífeyrissjóða vilja að heimildir verði rýmkaðar mun hraðar.
Undanfarin misseri hefur áhættunefnd og nefnd um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða innan LL greint gjaldeyrisþörf sjóðanna og þau skilyrði sem þeim eru sett varðandi eignir í erlendri mynt. Niðurstaða þeirrar vinnu er að með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi sé afar brýnt að rýmka heimildir sjóðanna til að eiga eignir í erlendri mynt og innleiðing ætti að gerast hraðar en lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi.
Það eru því skiptar skoðanir um það hversu hratt sé æskilegt að rýmka heimildir sjóðanna til fjárfestinga í erlendri mynt og voru líflegar umræður um það í pallborðinu þar sem Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans stjórnaði umræðunni.
Í pallborðinu voru auk Más þau Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri LSR og stjórnarmaður LL, Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og formaður nefndar LL um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða og Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við HÍ.