Fagtímaritið European Pensions hefur valið Almenna lífeyrissjóðinn lífeyrissjóð ársins 2017 í Evrópu. Dómnefnd segir að Almenni sé „framúrskarandi í þjónustu sinni við sjóðfélaga og hafi sjóðfélaga og þjónustu við þá í forgangi í allri starfsemi sinni“.
Almenni lífeyrissjóðurinn greinir frá viðurkenningunni á vef sínum og segir þar:
„Verðlaunin og ummælin eru Almenna mikill heiður ekki síst í ljósi þess að allir lífeyrissjóðir í Evrópu, stórir sem smáir geta gert tilkall til þeirra. Þetta er fimmta árið í röð sem tímaritið tilnefnir Almenna til verðlauna. Þrjú ár í röð var sjóðurinn tilnefndur til verðlauna fyrir samskipti við sjóðfélaga og á síðasta ári var sjóðfélagavefur Almenna ein af fimm nýjungum sem tilnefndar voru sem nýjungar ársins.
European Pensions tímaritið þykir vera í fremstu röð á sínu sviði og býður lesendum upp á nána greiningu á helstu fréttum um fjárfestingar og lífeyrismál í Evrópu ásamt ítarlegri umfjöllun um strauma og stefnur í hverju landi fyrir sig. Það er breska útgáfufyrirtækið Perspective Publishing sem gefur tímaritið út en auk European Pensions gefur fyrirtækið út fagtímaritin Pension Age, um lífeyrismál í Englandi og Charity times, Retail Systems, Financial Sector Technology, Continuity Insurance & Risk og Cable & Satellite International. Öll tímaritin eru undir upplagseftirliti og stefna að því að vera í fremstu röð á sínu sviði.
Í ár hefur Almenni hlotið verðlaun hjá tveimur fremstu fagtímaritum um lífeyrismál í Evrópu en í desember síðastliðnum var Almenni valinn besti opni lífeyrissjóður í Evrópu hjá Investment & Pensions Europe (IPE). Hjá því tímariti var sjóðurinn einnig, annað árið í röð, valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu hjá þjóðum með færri en milljón íbúa. Þessi tvö fagtímarit eru útbreiddust og talin standa hvað fremst í umfjöllun um lífeyrismál í álfunni.
Þessar viðurkenningar eru sjóðnum heiður og hvatning til að gera enn betur í þjónustu við sjóðfélaga.“