Lífeyrissjóðir kaupa Streng h.f. fyrir 564 milljónir kr.

Franska fyrirtækið Integra hefur selt Streng h.f. til níu lífeyrissjóða og er kaupverðið 7,1 milljón evra eða 564 milljónir íslenskra króna.

Lífeyrissjóðirnir sem standa að kaupunum eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Norðurlands, Lífeyrissjóðurinn Lífiðn, Lífeyrissjóður Vestfirðing, Lífeyrissjóður Suðurnesja og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Integra hefur sérhæft sig í hýsingu á Netinu og lausnum á sviði rafrænna viðskipta. Í byrjun síðasta árs keypti Integra öll hlutabréf norska fyrirtækisins Infostream sem var móðurfélag Strengs h.f. Í tilkynningu frá Integra segir að ástæða sölunnar sé að félagið hyggist einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni en velta Strengs var um 8,5% af heildarveltu Integra á síðasta ári. Strengur hf. er rótgróið hugbúnaðarfyrirtæki með mikla reynslu í þróun hugbúnaðar fyrir íslenska og erlenda aðila. Strengur hf. er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins en umsvif fyrirtækisins ná til flestra þátta sem lúta að upplýsingatækni og hugbúnaðargerð fyrir viðskipti, þjónustu og verkfræði. Starfsemi Strengs hf. spannar vítt svið. Fyrirtækið er sölu-og þróunaraðili á viðskiptakerfinu Navision/Fjölni og á gagnasafns- og þróunarumhverfinu Informix. Strengur hf. hefur víðtæka reynslu við hönnun hugbúnaðar fyrir viðskiptalífið, sem og verkfræðilausnir. Meðal verkefna á þeim sviðum eru hagkvæmniathuganir vegna uppbyggingar Landsvirkjunnar á íslenska raforkukerfinu og þróun tölvukerfa fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins og Veðdeild Landsbanka Íslands Að sögn Kristjáns Arnar Sigurðssonar hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum og Garðars Jóns Bjarnasonar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þá telja þeir að Strengur sé gott fyrirtæki sem eigi mikla framtíðarmöguleika. Fyrirtækið þjóni mörgum góðum viðskiptavinum og hafi þróað framúrskarandi hugbúnað og hafi yfir að ráða mjög hæfu starfsfólki. Þá séu uppi ýmsar hugmyndir til að gera fyrirtækið enn sterkara.