Lífeyrisgáttin sparar sporin

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa opnað Lífeyrisgáttina með upplýsingum um öll áunnin ellilífeyrisréttindi á einum stað. Lífeyrissjóðir landsins kynna um þessar mundir Lífeyrisgáttina, sem er læst vefsíða með upplýsingum um áunnin lífeyrisréttindi fólks í öllum sjóðum sem það hefur greitt iðgjöld í um ævina, lifeyrisgattin. is. Tilgangurinn er að auðvelda sjóðfélögum að fylgjast með mikilvægum réttindum sem þeir ávinna sér með greiðslum í lífeyrissjóði.

Verðmæt réttindi
Lífeyrisréttindi eru verðmæt og einstaklingum ber að hugsa um þau í því samhengi. Ellilífeyrir lífeyrissjóða er yfirleitt uppistaðan í eftirlaunum einstaklinga. Hjá þeim sem missa starfsorku og verða óvinnufærir er örorkulífeyrir lífeyrissjóða oft einu tekjurnar sem einstaklingar fá  umfram örorkubætur almannatrygginga. Við fráfall sjóðfélaga erfist inneign í séreignarsjóði og lífeyrissjóðir greiða maka- og barnalífeyri sem hjálpa eftirlifendum að laga sig að nýjum aðstæðum. Á árinu 2012 greiddu lífeyrissjóðirnir 53 milljarða í ellilífeyri og 21 milljarð í áfallalífeyri. Að auki voru 10 milljarðar greiddir úr séreignardeildum til sjóðfélaga. Ýmsir fullyrða að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum séu ekki mjög háar og benda á að núverandi lífeyrisþegar séu ekki að fá meira en sem nemur 110-120 þúsund kr. á mánuði að meðaltali. Þá er rétt að hafa í huga að margir af núverandi lífeyrisþegum greiddu ekki alla starfsævina í lífeyrissjóð og til ársins 1990 voru iðgjöld í lífeyrissjóð eingöngu greidd af dagvinnu hjá almennu verkafólki. Þegar kemur að því að lífeyrisþegar hafa greitt 10%-12% af heildarlaunum sínum í lífeyrissjóð alla starfsævina munu lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða vega þyngra í eftirlaunum en nú er. Í tímaritinu Vísbendingu í júní 2013 var áætlað með stærðfræðilíkani hvernig lífeyristekjur muni aukast í framtíðinni.

Opið upp á gátt

Mikilvægi lífeyrissjóðanna fyrir einstaklinga fer vaxandi og um leið verður æ þýðingarmeira að fólk þekki réttindi sín. Lífeyrissjóðir vilja veita sjóðfélögum sínum góða þjónustu og upplýsingar. Flestir sjóðanna bjóða aðgang að sjóðfélagavef á heimasíðu sinni með upplýsingum um iðgjaldagreiðslur og áunnin réttindi í viðkomandi sjóði. Nú hafa lífeyrissjóðirnir í sameiningu aukið þjónustu við sjóðfélaga með því að gera þeim kleift að kalla eftir upplýsingum um réttindi í öllum sjóðum í Lífeyrisgáttinni. Þannig er auðveldara fyrir sjóðfélaga að fá upplýsingar og þekkja rétt sinn. Það er von lífeyrissjóðanna að þessi þjónusta mælist vel fyrir. Starfsfólk sjóðanna er reiðubúið að veita frekari upplýsingar um réttindin mikilvægu.
Höfundur er stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða.