Skömmu fyrir síðustu áramót fékk stjórn Kjalar lífeyrissjóðs bréf frá Fjármálaeftirlitinu, þar sem vakin var athygli á misræmi í upplýsingum um fjárfestingar. Að mati FME var eignastaða sjóðsins gagnvart einstökum aðilum umfram heimildir. Þetta mun hafa gerst á vormánuðum 2008 og kom fram í skýrslum m.v. stöðu sjóðsins í lok mars og í lok júní. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins skýrði þessi „mistök“ með kerfisvillu í hugbúnaði en stjórnin krafðist þess að eignasafnið yrði stillt af í samræmi við lög og reglur þar um. Sjá nánar fréttatilkynningu frá sjóðnum hér á eftir.
Yfirlýsing frá stjórn Kjalar, lífeyrissjóðs Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir rekstur Kjalar lífeyrissjóðs auk fjögurra annarra lífeyrissjóða sem verið hafa í rekstri NBI og svipti stjórnarmenn sjóðsins umboði sínu hinn 16. þ.m.. Af því tilefni vilja fráfarandi stjórnarmenn Kjalar upplýsa eftirfarandi:
Kjölur lífeyrissjóður fékk starfsleyfi 13. nóvember 2007 og hafði því aðeins starfað rúma 10 mánuði er efnahagshrunið skall á. Stjórn sjóðsins gerði samning við Landsbanka Íslands um rekstur sjóðsins en samkvæmt honum tók stjórnin ákvörðun um fjárfestingarstefnu hans en kom ekki að ákvörðunum varðandi einstakar fjárfestingar. Landsbanki Íslands sá um útgreiðslur, utanumhald og allar upplýsingar til sjóðfélaga.
Daglegur rekstur sjóðsins var á ábyrgð framkvæmdastjóra og innra eftirlit bankans sá um eftirlit með að starfsemi sjóðsins væri í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Markmiðið með innra eftirliti er aðtryggja rekstraröryggi sjóðsins til skemmri og lengri tíma og felst í eftirliti með daglegri starfsemi sjóðsins, eftirliti með áreiðanleika fjárhagsupplýsinga sem og að dagleg starfsemi sé í samræmi við lög og reglugerðir um lífeyrissjóði.
Skömmu fyrir áramótin fékk stjórnin bréf frá FME dagsett 9. des. 2008 þar sem vakin var athygli á misræmi í upplýsingum um fjárfestingar. Að mati eftirlitins var eignastaða sjóðsins gagnvart einstökum aðilum umfram heimildir. Þetta mun hafa gerst á vormánuðum 2008 og kom fram í skýrslum m.v. stöðu sjóðsins 31.03.2008 og 30.06.2008.
Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins skýrði þessi „mistök“ með kerfisvillu í hugbúnaði en stjórnin krafðist þess að eignasafnið yrði stillt af í samræmi við lög og reglur þar um.
Stjórn Kjalar hafði hafið vinnu við að meta hvaða áhrif þetta hefði haft á afkomu sjóðsins á árinu 2008. Þetta var gert í samráði við endurskoðanda sjóðsins með það að markmiði að krefjast bóta úr hendi umsjónaraðila sjóðsins yrði hann talinn skaðabótaskyldur.
Stjórn sjóðsins hefur lagt sig fram um að starfa með hag sjóðsins og sjóðfélaga hans að leiðarljósi og mun áfram gera það eftir bestu getu og aðstoða nýja stjórnendur ef eftir því verður leitað.