Fyrir tveimur árum var skipuð nefnd á vegum norrænu fjármálaráðherranna til þess að skoða langtímaáhrif breyttrar aldurssamsetningar á fjármál hins opinbera á Norðurlöndum. Nefndin hefur nú lokið störfum og voru niðurstöður hennar birtar á norrænni ráðstefnu sem haldin var fyrir skömmu. Fram kemur að opinber útgjöld vegna ellilífeyris verða minnst á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Skýringin liggur í sérstöðu íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að starfandi einstaklingum á bak við hvern ellilífeyrisþega muni fækka á næstu áratugum. Í dag er áætlað að 3-6 einstaklingar á vinnualdri (16-64 ára) standi að baki hverjum einstaklingi 65 ára og eldri. Sambærilegar tölur eru hins vegar taldar verða 2-3 árið 2050. Þessar niðurstöður sýna hliðstæða þróun í sambærilegum athugunum sem gerðar hafa verið í einstökum iðnríkjum innan OECD og hafa vakið upp spurningar um framtíðarstöðu opinbera fjármála.
Ein af forsendum þessarar athugunar var að aldurstengd útgjöld hins opinbera yrðu ekki skorin niður heldur ykjust í takt við breytta aldurssamsetningu. Ennfremur er reiknað með að opinberar millifærslur breytist í samræmi við almenna launaþróun. Samkvæmt skýrslunni er allt að fjórðungur opinberra útgjalda á Norðurlöndum beint tengdur ellilífeyrisþegum.
Þessir framreikningar sýna mismunandi vöxt aldurtengdra opinberra útgjalda á Norðurlöndum. Meðal annars kemur fram að útgjöld vegna ellilífeyrisgreiðslna aukast verulega á öllum Norðurlöndum nema á Íslandi eins og sést í meðfylgjandi töflu:
Opinber útgjöld vegna ellilífeyris % af landsframleiðslu
Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Sviþjóð | |
2000 |
4,4 |
6,5 |
2,0 |
9,3 |
9,0 |
2050 |
7,1 |
11,7 |
2,0 |
18,4 |
10,6 |
Helsta skýring á því að lífeyrisútgjöld á Íslandi hækka ekki í takt við hin Norðurlöndin er sérstaða íslenska lífeyriskerfisins en aldurstengd opinber útgjöld hérlendis vegna heilbrigðismála og öldrunarþjónustu munu aftur á móti aukast sem hlutdeild af landframleiðslu næstu 50 árin.
Hvernig verður auknum aldurstengdum opinberum útgjöldum mætt í framtíðinni?
Í skýrslunni kemur fram nokkur bjartsýni hvað þetta varðar og bent á ýmsa þætti sem skapa svigrúm til að mæta þessari þróun.
Í fyrsta lagi er reiknað með meiri atvinnuþátttöku fólks á vinnualdri og jafnvel fólks sem komið er yfir hefðbundinn vinnualdur. Í þessu sambandi er meðal annars bent á að þetta geri kröfur til meiri sveigjanleika á vinnumarkaði.
Í öðru lagi hefur vaxandi aðhald í opinberum fjármálum leitt til aukins sparnaðar og afgangs í opinberum rekstri sem síðan hefur leitt til minnkandi vaxtagreiðslna. Mikilvæg forsenda til að mæta þessari þróun er þannig áframhaldandi aðhaldssemi í fjármálum hins opinbera á Norðurlöndum á næstu áratugum.