Mikill viðskiptaafgangur síðustu ára hefur gefið lífeyrissjóðum svigrúm til þess að fjárfesta erlendis og ná fram áhættudreifingu í eignasafni sínu. Í ljósi þess að útflutningstekjur landsins munu fyrirsjáanlega dragast saman tímabundið telja Landssamtök lífeyrissjóða það eðlilegt að lífeyrissjóðir standi ekki að gjaldeyriskaupum á næstu mánuðum. Sjóðirnir eru í eigu almennings og því mikilvægt að þeir sýni ríka samfélagslega ábyrgð þegar kemur til fjárfestinga og viðbragða í okkar samfélagi á óvissutímum.
Landssamtök lífeyrissjóða funduðu með seðlabankastjóra í dag – þann 17. mars 2020 – þar sem fjallað var um þá óvissu sem nú er til staðar í efnahagsmálum landsins. Samtökin vilja eftir þann fund senda hvatningu til allra lífeyrissjóða landsins að þeir haldi að sér höndum um gjaldeyriskaup á næstu þremur mánuðum. Þykir mikilvægt að sjóðirnir leggi sitt af mörkum við að styðja við íslenskt samfélag og stuðla þannig að stöðugleika þegar gefur á bátinn.
F.h. Landssamtaka lífeyrissjóða
Guðrún Hafsteinsdóttir,
formaður stjórnar LL