„Sérstaða okkar er sú að Brú er tvímælalaust flóknasti lífeyrissjóður landsins og starfsmennirnir hljóta að vera með þeim frjósömustu í bransanum!“ segir Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar lífeyrissjóðs. Sjóðurinn skipti um heiti í júní 2016. Hann var stofnaður 1998 annars vegar með samningi þriggja heildarsamtaka fyrir hönd viðkomandi stéttarfélaga (BHM, BSRB og KÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar og hét Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga fyrstu átján árin.
Það sem Gerður vísar til með frjósemina á skrifstofu Brúar er sú staðreynd að fimmti hver starfsmaður sjóðsins eignaðist barn á árinu 2019! Vel að verki verið að þrjátíu manna vinnustaður sjái Íslandi fyrir sex nýjum þegnum á sama árinu.
Mannfjölgunin er út af fyrir sig ekki flókið mál en þegar framkvæmdastjórinn talar um flókinn lífeyrissjóð varðar það óvenjulega uppbyggingu eða samsetningu sjálfs sjóðsins því hann hefur 9 réttindasöfn í þremur deildum:
Skuldbindingar viðkomandi sveitarfélaga halda sér hjá sjóðunum í B-deild, eignir eru sameiginlegar en hvert réttindasafn er með eigin réttindaákvæði sem eru keimlík en þó með mismunandi áherslum.
Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar er í rekstrarumsjón hjá Brú en lífeyrisréttindi þess sjóðs eru sambærileg og réttindi B deildarinnar.
Gerður tók við af Jóni G. Kristjánssyni sem framkvæmastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga í júlí 2014. Hún er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, var áður fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar frá 2007 og þar áður endurskoðandi hjá Grant Thornton um árabil, síðast forstöðumaður endurskoðunar- og gæðasviðs fyrirtækisins. Hún var meðal annars endurskoðandi lífeyrissjóða og síðar bæði stjórnarmaður Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og formaður endurskoðunarnefndar sjóðsins áður en hún var ráðin sem framkvæmdastjóri sjóðsins.
Brú lífeyrissjóður er í áttunda sæti í eignaröð lífeyrissjóða. Hrein eign sjóðsins var liðlega 216 milljarðar króna í lok árs 2018. Sjóðurinn ávaxtaði vel eignir sínar árinu 2019 líkt og lífeyrissjóðir landsins yfirleitt og sjóðfélagalánum Brúar fjölgaði mikið á árunum 2018 og 2019 líkt og annars staðar í lífeyrisjóðakerfinu.
„Við höfum ekki þrengt lánareglur líkt og sumir aðrir lífeyrissjóðir. Að okkar mati eru sjóðfélagalánin góður fjárfestingarkostur og sjóðurinn hefur gert mörgu ungu fólki mögulegt að kaupa fyrstu fasteignina. Við verðum líka mjög vör við að sjóðfélagar fylgjast vel með kjörum á fjármálamarkaði og hika ekki við að endurfjármagna eldri og óhagstæðari lán ef svo ber undir. Upplýsingarsíðurnar herborg.is og aurbjorg.is koma sterkt inn og þar geta neytendur borið saman ólíka kosti.
Sjóðfélagalánin hjálpa okkur að nálgast sjóðfélaga mun fyrr en ella á æviskeiðinu sem vonandi hefur jákvæð áhrif á viðhorf þeirra til sjóðsins. Við eigum að nýta þessi tengsl betur til fræðslu og þurfum að ná til fólks fyrir fertugt til að fara yfir og ræða lífeyrismál. Þá er enn tími til að gera frekari ráðstafanir í lífeyrismálum. Fullseint er að bregðast við um sextugt, hvað þá síðar.“
Brú lífeyrissjóður hefur fjárfest minna erlendis en margir aðrir sjóðir en á því er orðin breyting. Framkvæmdastjórinn segir að vægi erlendra fjárfestinga muni nú aukast verulega, bæði til að dreifa áhættu og byggja upp eignir. Íslenski fjármálamarkaðurinn hefur líka sín takmörk.
„Í lífeyrissjóðakerfinu á sér stað afar jákvæð og góð umræða um að fjárfestingar taki mið af umhverfismálum, félagslegum þáttum og góðum stjórnarháttum. Þetta er viðhorfsbreyting og hún gerist hratt. Það er gott því fjármagnið stýrir miklu í samfélaginu.“
„Forystusveitir lífeyrissjóðakerfisins standa frammi fyrir stórum spurningum sem óhjákvæmilegt er að ræða og svara í ljósi stöðunnar sem blasir við okkur,“ segir Gerður.
„Á síðustu misserum hafa vextir farið lækkandi hérlendis og erlendis og ólíklegt að sú þróun eigi eftir að breytast á næstunni. Áður gáfu skuldabréf 6-7% raunvexti eða meira en þannig er staðan alls ekki nú. Þetta lágvaxtaumhverfi hlýtur að kalla á endurmat á þeim viðmiðum sem við notum til að meta skuldbindingar lífeyrissjóðanna, það er að segja 3,5% raunávöxtun.
„Lögð hefur verið áhersla á þróun og innleiðingu stafrænna lausna í starfsemi Brúar lífeyrissjóðs sem hefur gert góða þjónustu við sjóðfélaga enn betri og aukið hagkvæmni í rekstri. Við ætlum að leggja enn frekari áherslu á slíkar lausnir, bæði í lánamálum og lífeyri. Allar okkar umsóknir eru eingöngu rafrænar og hafa verið þannig frá árinu 2017.
Sjóðurinn hefur á að skipa afar hæfu starfsfólki. Það býr að góðri reynslu og þekkingu sem gagnast vel þegar sinna þarf krefjandi verkefnum.
Ég verð að segja að æskilegt sé að stjórnvöld og löggjafinn vandi betur til verka við lagabreytingar, til dæmis með meiri samvinnu við hagaðila. Við höfum því miður fengið flókin verkefni fyrirvaralítið og þá er ég að tala um breytinguna á A-deild Brúar og LSR. Þá má einnig nefna breytingu á lögum um almannatryggingar er varðar hálfan lífeyri. Nú er afar brýnt að stjórnvöld vandi vel til verka við fyrirhugaðar breytingar á lífeyrissjóðalöggjöfinni. Drög að frumvarpi voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda og barst fjöldi umsagna en ljóst er að hefðu þau drög verið lögð fram á Alþingi og orðið að lögum hefði lífeyriskerfi landsins gjörbreyst.
Ég leggst alls ekki gegn breytingum sem slíkum en þær þurfa að vera skynsamlegar og til bóta en jafnframt verður að vera svigrúm til að hrinda þeim í framkvæmd á sómasamlegan hátt og hafa til þess þann tíma sem þarf.“