Tæplega 50 lífeyrissjóðir hafa nú fengið starfsleyfi hjá fjármálaráðherra en um 15 lífeyrissjóðir eru enn án starfsleyfa.
Samkvæmt lögum um starfsemi lífeyrissjóða og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997, sem tóku gildi 1. júlí 1998, veitir fjármálaráðherra lífeyrissjóðum starfsleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.á.m. að samþykktir viðkomandi sjóðs séu í samræmi við lög og reglugerðir.Lífeyrissjóðir sem hyggjast halda áfram að taka við iðgjöldum höfðu eins árs umþóttunartíma eða til 1.júlí á síðasta ári til að senda inn umsókn um starfsleyfi. Allir frestir eru nú liðnir en enn eiga 15 lífeyrissjóðir eftir að fá starfsleyfi hjá fjármálaráðherra. Hér er þó ekki um stórvægilegt vandamál að ræða, þar sem lífeyrissjóðir með um 94% af heildareignum sjóðanna hafa fengið starfsleyfi. Eftir eru nokkrir litlir lífeyrissjóðir, sem allir hafa sótt um starfsleyfi en umsóknir þeirra hafa verið í athugun hjá fjármálaráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu. Í sumum tilvikum hafa verið gerðar athugasemdir við samþykktir sjóðanna og er unnið að úrbótum af hálfu þeirra. Að því er stefnt að veita þessum sjóðum starfsleyfi á allra næstu vikum og í síðasta lagi fyrir lok næsta mánaðar.