LL hafa átt aðkomu að fjármálalæsisverkefninu Fjármálaviti undanfarin ár með þeim hætti að fulltrúi frá LL hefur verið í stýrihóp verkefnisins og starfsmenn lífeyrissjóða hafa tekið þátt í skólaheimsóknum í grunnskóla. Verkefnið er í eigu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og verkefnisstjóri er Kristín Lúðvíksdóttir.
Um er að ræða fræðsluvettvang fyrir ungmenni á aldrinum 13–15 ára þar sem markmiðið er að bæta fjármálalæsi. Í verkefninu er stuðst við bækur eftir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins. Í grunnskólum er það bókin Fyrstu skref í fjármálum og í framhaldsskólum bókin Farsæl skref í fjármálum.
Eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur lítið og nánast ekkert verið um skólaheimsóknir í grunnskóla. Aftur á móti nýtti verkefnastjóri og stýrihópur Fjármálavits tímann til þess að fara í stefnumótunarvinnu með Fjármálavit. Skoðað var hvernig væri hægt að efla fjármálakennslu með því að styðja við kennara en þar sem fjármálalæsi hefur ekki verið hluti af aðalnámskrá hefur það verið tilviljanakennt hvaða skólar og kennarar hafa lagt áherslu á kennslu á Fjármálaviti.
Hins vegar horfir til betri vegar í framtíðinni því í byrjun árs 2021 áttu fulltrúar SFF fund með þáverandi menntamálaráðherra þar sem upplýst var að til stæði að endurskoða aðalnámskrá.
Á fundinum var ákveðið að Fjármálavit kæmi með tillögur að hæfniviðmiðum í þá vinnu. Endurskoðun aðalnámskrár tekur langan tíma en í henni kemur fram hvaða þekkingu, leikni og hæfni stjórnvöld telja mikilvæg til framtíðar.
Fjármálavit stendur því á ákveðnum tímamótum og horft er til nýrra áherslna í starfseminni þar sem ljóst er að skólaheimsóknir munu smám saman leggjast af þegar fjármálalæsi verður hluti af námsefni grunnskóla. Áhersla verkefnastjóra og stýrihópsins verður í ríkara mæli að styðja við kennara og leggja til aðgengilegt kennsluefni.
Eftir hugarflugsfundi og umræður hjá stýrihópnum um heppilegar leiðir var ákveðið að framleiða myndbönd með ítarlegum leiðbeiningum fyrir kennara um námsefni og verkefni sem aðgengileg eru á vefsíðu Fjármálavits. Bækurnar sem kenndar eru í Fjármálaviti voru hafðar til hliðsjónar í uppbyggingu á myndböndunum.
Þá hefur SFF hafið samstarf við Opna háskólann í Reykjavík um gerð námskeiðs um fjármál einstaklinga. Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem hafa áhuga á að bæta eigið fjármálalæsi og einnig þeim sem vilja auka þekkingu til að miðla áfram, t.d. í kennslu. Hlutinn sem snýr að kennslu nefnist Að kenna fjármálalæsi og standa vonir til að kennarar nýti sér það í framtíðinni. Fulltrúi LL í gerð kennsluefnis fyrir námskeiðið var Snædís Ögn Flosadóttir, formaður fræðslunefndar LL. Kristján Arnarson grunnskólakennari, sem hefur reynslu af því að kenna Fjármálavit, kom að því að móta hugmyndir og útfærslu að námskeiðsgerðinni.
Það verður stór áfangi að koma fjármálalæsi í aðalnámskrá grunnskóla sem vonandi verður að veruleika sem fyrst!