„Rík ástæða er til þess að minnast áfangans myndarlega, enda upphafið að lífeyrissjóðakerfi sem horft er til sem fyrirmyndar víðs vegar að í veröldinni. Sumir vilja jafnvel meina að stofnun lífeyrissjóðanna séu best heppnaða efnahagsaðgerð 20. aldar á Íslandi!“
Hrafn Magnússon er liðsmaður hóps sem Landssamtök lífeyrissjóða skipuðu til að fjalla um hvernig haldið yrði upp á fimmtugsafmæli lífeyrissjóðakerfisins í vor og hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd þess sem gert verður.
Hrafn var fyrsti framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og svo vill til að núna 18. desember 2018 voru 20 ár liðin frá stofnun samtakanna. Afmælisnefndin kom saman til fyrsta fundar 22. nóvember til að reifa viðfangsefnið. Hún tekur þráðinn upp af krafti að nýju í janúar. Með Hrafni eru þar þrír fyrrum stjórnarmenn Landssamtaka lífeyrissjóða: Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, núverandi formaður Landssambands eldri borgara; Arnar Sigurmundsson og Þorbjörn Guðmundsson auk núverandi framkvæmdastjóra Þóreyjar S. Þórðardóttur. Arnar og Þorbjörn eru báðir fyrrverandi formenn Landssamtaka lífeyrissjóða.
„Í kjarasamningunum 1969 var tekið risaskref í lífeyrismálum og í framhaldinu var skylduaðild allra launamanna að lífeyrissjóðum lögfest árið 1974. Löggjöfin náði líka til þeirra sem stóðu utan verkalýðsfélaga og áratug seinna til allra starfandi manna á Íslandi.“ segir Hrafn Magnússon.
„Fjórir lifa af þeim sem skrifuðu undir tímamótasamninginn 1969, þar á meðal Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hinir þrír voru atvinnurekendamegin við samningaborðið: Jón H. Bergs, Júlíus Valdimarsson og Þorvarður Alfonsson. Óttarr Möller, fyrrverandi forstjóri Eimskipafélags Íslands, var í þessum hópi líka en lést miðvikudaginn 19. desember 2018. Júlíus var unglambið í hópi samningamanna beggja vegna borðs, vel innan við þrítugt. Hann var þar fyrir hönd Vinnumálasambands samvinnufélaganna.
Margt er annars merkilegt við tímamótin 1969, ekki síst sú staðreynd að á Íslandi var mjög djúp og skörp efnahagskreppa um þetta leyti, raunar alvarlegri en sú sem skall á okkur eftir bankahrunið 2008. Síldin hvarf af miðum, verð á frystum fiski féll á Bandaríkjamarkaði, verð á mjöli og lýsi í Evrópu sömuleiðis og skreiðarmarkaður í Nígeríu lokaðist vegna borgarastyrjaldar. Allt á sama tíma!
Verðmæti útflutnings landsmanna dróst saman um 30% árið 1967. Gengi krónunnar var fellt aftur og aftur og það jafnvel um tugi prósenta í einu en dugði ekki til. Fjöldaatvinnuleysi brast á og fór yfir 7%. Fólk flýði land í stórum stíl í leit að vinnu, tekjum og betra lífi. Svíþjóð og Danmörk voru fyrirheitnu löndin hjá mörgum „flóttamönnum“ úr íslensku kreppunni, Ástralía líka. Iðnaðarmenn streymdu til að mynda til skipasmíðastöðvanna Kockum í Svíþjóð og Burmaster & Wain í Danmörku. Mestur var „flóttamannastraumurinn“ úr landi árið 1970 þegar 2.200 fluttu héðan.
Ástandið var alvarlegt og snerti marga. Ég slapp betur en margir, starfaði þá sem kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og hafði tryggt starf þar.
Þess vegna er mjög áhugavert og því skal ævinlega haldið til haga að einmitt í alvarlegu kreppuástandi lögðu forystumenn launafólks og atvinnurekenda á almennum markaði grunn að lífeyrissjóðakerfinu sem við höfum núna og teljum mörg hver sjálfsagðan hlut en það er auðvitað ekki svo.
Lífeyrissjóðir á Íslandi greiddu alls 125 milljarða króna í lífeyri til síns fólks á árinu 2017. Það hefði brakað í stoðum margra heimila og ríkisins ef ríkissjóður hefði borið öll þau útgjöld og þurft að innheimta skatta til að standa undir öllu saman.“
Lífeyrissjóðir landsins mynduðu og starfræktu tvenn heildarsamtök um árabil, annars vegar Samband almennra lífeyrissjóða – SAL sem í voru sjóðir á almennum vinnumarkaði. Hins vegar var til Landssamband lífeyrissjóða. Þar voru Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Samvinnulífeyrissjóðurinn langstærstir.
Utan beggja heildarsamtakanna stóðu margir sjóðir, þar á meðal Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður sjómanna, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Lífeyrissjóður bankamanna og fleiri.
Að því kom að áhugi vaknaði á nánari samstarfi eða jafnvel sameiningu heildarsamtakanna og gengu viðræður snurðulítið fyrir sig. Stofnfundur var 18. desember 1998 og mátti ekki seinna vera því nýstofnuð Landssamtök lífeyrissjóða hófu starfsemi nokkrum dögum síðar.
Við stofnun Landssamtaka lífeyrissjóða voru 33% heildareigna lífeyrissjóðanna innan SAL, 30% eigna voru innan Landssambands lífeyrissjóða og eignir sjóða utan heildarsamtakanna tveggja námu um 35% af heildareignum lífeyrissjóðakerfisins.
Hvort sem það má til sanns vegar færa eða ekki, um ástæðu þess að stofnfundurinn var settur á rétt fyrir jól, þá settist Þorgeir Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og formaður stjórnar Landssambands lífeyrissjóða, á skólabekk í Harvard-háskólanum í Bandaríkjunum haustið 1998. Samstarfsmönnum hans í lífeyrissjóðakerfinu þótti ófært að sameina heildarsamtökin að honum fjarverandi. Stofnfundur Landssamtaka lífeyrissjóða var því ekki fyrr en Þorgeir var kominn heim að námi loknu rétt fyrir jól!