Guðrún tók við formennsku í stjórn LL af Þorbirni Guðmundssyni í maí 2018. Áhrif Guðrúnar eru víða eins og fram kemur í viðtali við hana í Morgunblaðinu 6. september 2018. Auk formennsku í stjórn LL er hún markaðsstjóri Kjöríss í Hveragerði, formaður Samtaka iðnaðarins, situr í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og er formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Guðrún segir í viðtalinu við Morgunblaðið að þessi hlutverk spili vel saman og styrki hvert annað. Hún segir störfin snúa öll að mannlegum samskiptum og að það henti henni vel.
Landssamtök lífeyrissjóða héldu árlegan vinnu- og stefnumótunarfund fyrir skemmstu og stiklar Guðrún á stóru um helstu áhersluatriði sem þar voru rædd, s.s. mögulega hagræðingu í lífeyrissjóðakerfinu, lagabreytingar í tengslum við tilgreinda séreign, hálfan lífeyri, kosti sjóðssöfnunarkerfis samanborið við gegnumstreymiskerfi og ímyndarvanda kerfisins.
Guðrún kveðst bjartsýn fyrir hönd lífeyrissjóðakerfisins en hún hefur þó áhyggjur af orðsporsvanda þess. "Mér finnst það persónulega sorglegt því okkur á að þykja vænt um sparnaðinn okkar".
Guðrún segir enn fremur að ef við berum okkur saman við önnur lönd þá sjáum við að við getum svo sannarlega verið stolt af því að hafa komið upp einu besta lífeyriskerfi í heimi. Kerfið sé ekki fullþroskað og verði það ekki fyrr en í kringum 2030 og fram að þeim tíma verði ákveðið gat í kerfinu þar sem það verður með einstaklinga sem eru kannski að fá lægri lífeyri en þeir þurfa til að lifa.