Eignir lífeyrissjóðanna 677 milljarðar króna um síðustu áramót.

Samkvæmt efnahagsyfirliti Seðlabanka Íslands námu eignir lífeyrissjóðanna 677 milljörðum króna um síðustu áramót, sem er aukning um rúmlega 32 milljarða króna milli ára eða um 5%.

Tölfræðisvið Seðlabankans hefur tekið saman efnahagsyfirlit sjóðanna miðað við árslok 2002, sem byggist á úrtaki 25 stærstu lífeyrissjóðanna, sem áttu um 93% af hreinni eign allra lífeyrissjóða í árslok 2001.

Erlend verðbréfaeign sjóðanna nam rúmum 103 milljörðum króna í árslok 2002, sem er lækkun borið saman við árslok 2001 þegar erlenda eignin nam rúmum 134 milljörðum króna. Aukningin milli áranna 2000 og 2001 nam hins vegar tæpum 7 milljörðum króna eða um 5,2%. Erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna er nú um 15,3% af heildareignunum en var um 20,9% í árslok 2001 og um 22,6% í árslok 2000.

Húsbréfaeign sjóðanna nam um 199 milljörðum króna í árslok 2002, sem er aukning um rúm 18% milli ára. Sjóðfélagalán námu alls rúmlega 84 milljörðum króna sem er aukning um tæplega 13 milljarða króna milli ára eða rúmlega 18%.