„Við náum vel með fjármálafræðslu til ungmenna í grunnskólum og að nokkru leyti í menntaskólum líka. Þá er aðsókn á upplýsingafundi fyrir þá sem nálgast eftirlaunaaldur slík að salarkynnin yfirfyllast.
Hins vegar þurfum við að leita leiða til að ná betur athygli fólks á miðjum starfsaldri og rúmlega það. Sá markhópur er á aldrinum 45 til 55 ára og hefur í mörgum tilvikum svigrúm til að breyta einhverjum þáttum í lífeyrissmálum sínum til að búa í haginn fyrir efri ár og eftirlaunaaldur.
Oft rekum við okkur á að menn vakna upp við það á sjötugsaldri að þeir hefðu betur brugðist við fyrr, til dæmis með því að spara í séreign, auka séreignarsparnað eða færa eign sína úr einni sparnaðarleið í aðra. Slík viðbrögð kæmu bara jafnan of seint þegar fólk er orðið sextugt, hvað þá 65 ára.“
Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri EFÍA og LSBÍ og nefndarmaður fræðslunefndar Landssamtaka lífeyrissjóða, fjallaði um fræðslu- og kynningarmál lífeyrissjóðakerfisins á hádegisverðarfundi samtakanna í gær (4. desember) undir yfirskriftinni: Eru lífeyrismál leiðinleg ...?
Spurningunni svaraði hún reyndar afdráttarlaust neitandi strax í upphafi máls síns. Hún færði síðan sannfærandi rök fyrir því að boðskapur um fjármál einstaklinga og um lífeyrismál skilaði sér bærilega þegar skilaboðin væru á annað borð skýr og „ydduð“ og snertifletir fyrir hendi milli sendenda og viðtakanda.
Óvissa um afkomu að starfsævi lokinni dugar til þess að væntanlegt eftirlaunafólk þyrpist á fund lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja til að fræðast um hvernig hagstæðast sé að haga útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Snædís Ögn hefur lent í því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að þurfa að hætta skráningu þegar 200 nöfn eru komin á blað fyrir slíkan fund. Færri komast að en vilja í það skiptið. Hún hefur líka upplifað það að ræða um lífeyrismál í nær mannlausum fundarsal en áheyrendur voru samt hátt í 2.000 hingað og þangað á heimilum og vinnustöðum. Fundinum var streymt á Vefnum. Áhuga vantaði ekki en „fundarmönnum“ hentaði betur að hlusta og taka þátt í samkomunni alls staðar annars staðar en á fundarstaðnum sjálfum. Það er því margs að gæta við kynningarmál og mat á árangri kynningar.
Lífeyrissjóðir koma upplýsingum um lagabreytingar og ýmislegt sem tengist réttindamálum, séreignarsparnaði, ávöxtun og ótal mörgu fleiru á framfæri við sjóðfélaga sína á vinnumarkaði. Sjóðirnir hafa í heild bætt sig mjög við upplýsingamiðlun, ekki síst með aðgengilegu og notadrjúgu efni á vefjum sínum, í rafrænum fréttabréfum, með greinaskrifum, sjóðfélagafundum og virkni á samfélagsmiðlum í seinni tíð. Betur má samt ef duga skal, einkum til að ná eyrum og augum fólks á miðjum aldri.
Landssamtök lífeyrissjóða og Samtök fjármálafyrirtækja hafa í þrjú ár staðið að verkefninu Fjármálavit og náð með markvissum hætti til ungmenna með sérsniðum verkefnum um fjármálalæsi og heimsóknum sjálfboðaliða úr ranni lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja í skóla. Snædís Ögn upplýsti að Fjármálavit hefði náð til meirihluta tíundubekkinga í grunnskólum landsins og að 80 grunnskólar hefðu fengið að gjöf bókina Fyrstu skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins og rithöfund, til að nota í kennslu.
„Við náum á þennan hátt að sá fræjum þekkingar hjá krökkunum en upplifum það meira og meira að leiðin að sálum þeirra liggur um YouTube. Þangað sækja þau þekkingu sína og visku í ótrúlega miklum mæli,“ segir Snædís Ögn.
„Myndbandsbrot gagnast því vel til að miðla upplýsingum til yngsta hópsins. Landssamtök lífeyrissjóða hafa svarað þessu kalli með vel heppnaðri myndbandagerð og Fjármálavit sömuleiðis m.a. með því að taka þátt í fræðsluverkefni með RUV.
Við vinnum markvisst í upplýsingagjöf og fræðslumálum en erum meðvituð um að við getum bætt okkur á ýmsum sviðum. Landssamtök lífeyrissjóða á Írlandi fengu mig til að fjalla um upplýsinga- og kynningamál íslenskra lífeyrissjóða og viðbrögðin voru á þann veg að ég áttaði mig á því hve vel við stöndum okkur, þrátt fyrir allt. Írarnir voru hrifnir af því hvernig að þessum málum er staðið hér og töldu sig hafa margt að læra í ljósi okkar reynslu og þekkingar. Höldum því til haga líka.“
Myndir frá fundinum