Birgir Ísleifur: Stöðugt gengi en vaxtahækkanir framundan.

Á fulltrúaráðsfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í gær flutti Birgir Ísleifur Gunnarsson, seðlabankastjóri athyglisvert erindi erind um stöðu og horfur í efna- og peningahagsmáum. Fram kom í erindi Birgis að búast megi við að gengið verði í sterkari kantinum meðan stóriðjuframkvæmdirnar standa yfir,svo og að líklegast sér að til vaxtahækkana komi fljótlega.

Í erindi Birgir kom fram að Seðlabankinn spái ekki fyrir um þróun gengisins, en með almennum orðum megi segja að heldur séu líkur á því að gengið verði í sterkari kantinum meðan stóriðjuframkvæmdirnar standa yfir. Hins vegar sé líklegt að verulegur hluti þeirrar hækkunar sé þegar kominn fram.. Innbyrðis breytingar vegna erlendra gjaldmiðla hafi svo að sjálfsögðu áhrif á gengi einstakra gjaldmiðla gagnvart krónunni, sbr. þróun dollarans að undanförnu.

Ýmis atriði geta þó vegið á móti styrkingu krónunnar. Eitt af því eru viðskipti með erlend verðbréf. Heildarviðskipti til loka október á þessu ári hafa nettó numið 33,3 milljörðum króna. Það er hærra heldur en á síðasta ári þar sem viðskiptin voru 21,7 milljarðar og mun hærra en á árinu 2001 en þá drógust þessi viðskipti mjög saman og urðu nettó ekki nema 5,7 milljarðar. En á sama tímabili árið 2000 voru þau þó töluvert meiri heldur en þau hafa verið á þessu ári. Beint fjárútstreymi vegna viðskipta með erlend verðbréf hafa verið nokkuð hátt síðustu þrjá mánuði, en fyrri hluta ársins var það tiltölulega lítið að marsmánuði þó undanskildum.

“Einhver kynni að halda að á móti þessu komi svo innstreymi vegna kaupa erlendra aðila á íslenskum verðbréfum. Svo er ekki nema að litlum hluta. Við vitum að allmikið hefur verið selt af húsbréfum t.d. til erlendra aðila en þau kaup hafa að mjög miklu leyti fari fram án þess að til gjaldeyrisviðskipta komi þar sem menn hafa tryggt sig fyrir gengisáhættu með framvirkum samningum um leið og kaupin á íslensku bréfunum eru gerð. Þau viðskipti hafa því haft lítil áhrif á daglegt gengi á markaðnum”, sagði Birgir Ísleifur.

Ennfremur sagði Birgir Ísleifur: “Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú eins og ég sagði áðan að búast má við að gengið verði í sterkari kantinum meðan stóriðjuframkvæmdirnar standa yfir.”

Að lokum gat Birgir þess miklir umbrotatímar séu í íslenskum efnahagsmálum sem kalla á styrka hagstjórn. Það á að sjálfsögðu við um stjórn peningamála en ekki síður um stjórn ríkisfjármála. Það á einnig við um aðra sem geta haft mikil áhrif á þróunina eins og samtök á vinnumarkaði og banka svo að dæmi séu nefnd. Að því að snertir stefnuna í peningamálum er það að segja að líklegast er að til vaxtahækkana komi fljótlega. Hvernig vextir þróast á næstunni mun þó eins og alltaf ráðast af því hver framvinda efnahagsmála verður en einnig því hver ríkisfjármálastefnan verður og hvaða breytingar kunna að verða ákveðnar á húsnæðislánum. Verði af stækkun Norðuráls mun það einnig hafa áhrif.


Sjá erindi Birgis Ísleifs Gunnarssonar á fulltrúaráðsfundi LL í gær.