Fjármálaeftirlitið hefur birt samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða fyrir árið 2019.
Lífeyrissparnaður landsmanna í formi samtryggingar og séreignar lífeyrissjóða nam 4.970 ma.kr. við lok ársins 2019. Eignir samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna námu við árslok 4.459 ma.kr. og jukust um nærri 17% milli ára. Séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna nam 510 ma.kr. sem var 20% aukning frá árinu á undan.
Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu nemur lífeyrissparnaður hjá lífeyrissjóðunum 167% sem er hátt í alþjóðlegum samanburði.
Ávöxtun lífeyrissparnaðar lífeyrissjóðanna var mun betri en árið á undan og nam hrein raunávöxtun samtryggingardeilda 11,97% og séreignarsparnaðar 9,97%. Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóða batnaði nokkuð milli ára vegna góðrar ávöxtunar.
Ávöxtun lífeyrissparnaðar er langtímasparnaður og því rétt að horfa til áratuga þegar árangur er metinn. Hrein ávöxtun samtryggingardeilda sl. 25 ár hefur verið að meðaltali 4,52%.
Fréttatilkynning Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissjóða 2019 á vef FME.
Samantekt Fjármálaeftirlitsins á ársreikningum lífeyrissjóða og talnaefni úr skýrslunni á vef FME.