Á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, sem haldinn í síðustu viku var Arnar Sigurmundsson frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja endurkjörinn formaður samtakanna. Guðrún Guðmannsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, kom í stjórnina í stað Margeir Daníelsson, sem gaf ekki kost á sér. Aðrir í stjórn samtakanna eru: Friðbert Traustason frá Lífeyrissjóði bankamanna, Gunnar Baldvinsson frá Almenna lífeyrissjóðnum, Gunnar Páll Pálsson frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, Haukur Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Þorbjörn Guðmundsson frá Sameinaða lífeyrissjóðnum og Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Gildi lífeyrissjóður. Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða er Hrafn Magnússon.
Arnar Sigurmundsson kom víða við í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna og er ræðan birt hér í heild sinni:
Landssamtök lífeyrissjóða áætla að raunávöxtun lífeyrissjóðanna í fyrra, það er ávöxtun lífeyrissjóðanna umfram verðbólgu, hafi numið um 0,5% að meðaltali og eru það mikil umskipti frá síðustu árum.
Ég tel því rétt að fara nokkrum orðum um þróun verðbréfamarkaða á síðasta ári. Eftir ágætt á íslenska hlutabréfamarkaðinum á árinu 2006, þegar OMX Úrvalsvísitalan hækkaði um 15,8%, lækkaði vísitalan í fyrra um 1,4% frá upphafi til loka ársins og lauk þar með samfelldu 6 ára hækkunarferli innlenda hlutabréfamarkaðarins. Árið í fyrra var lakasta ár á íslenskum hlutabréfamarkaði síðan árið 2001, þegar vísitalan lækkaði um 11,2%.
Mestu munar um lækkun bankanna og fjárfestingafélaganna en þessi fyrirtæki vega um 91% af vísitölunni. Árið 2007 byrjaði vel og hækkaði vísitalan nær samfellt fram í miðjan júlímánuð, þegar húsnæði var í hæstu hæðum og hafði hækkað um 41% frá áramótum. Samfelld lækkunarhrina á innlendum hlutabréfamarkaði samfara miklum óróleika á erlendum fjármálamörkuðum, sem rætur sínar átti að rekja til áhættusamra húsnæðislána í Bandaríkjunum einkenndi svo síðasta ársfjórðunginn á árinu 2007.
Ársbreyting erlendra hlutabréfavísitalna í fyrra var nokkuð sveiflukennd. Heimsvísitala Morgan Stanley hækkaði um 7,5%, en hún er helsti mælivarði á breytingu á hlutabréfamarkaði í heiminum. Evrópskir hlutabréfamarkaðir stóðu nánast í stað og lækkuðu um 0,1% og japanski hlutabréfamarkaðurinn um 11,1%. Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu á liðnu ári. S&P 500 hlutabréfavístalan hækkaði um 4,2% og Nasdaq-vísitalan um 10,7%. DowJones vístalan hækkaði um 7,2%.
Ef gengi íslensku krónunnar er skoðað á síðasta ári, þá kemur í ljós að krónan styrktist um liðlega 6% frá upphafi til loka ársins, en sviptingar innan ársins voru hins vegar verulegar. Þannig styrkist krónan fyrrihluta ársins um 15% en veikist seinni hlutann, einkum vegna skorts á lausafé og vaxandi erfiðleika vegna skuldabréfavafninga á erlendum fjármálamörkuðum. Gengisvarnir drógu úr neikvæðum áhrifum styrkingar íslensku krónunnar.
Þessar ástæður, sem ég hef nú greint frá urðu þess valdandi að fjárfestingarárangur lífeyrissjóðanna á síðasta ári var ekki góður. Ávöxtun sjóðanna yfir eitt ár mun þó hafa lítil áhrif á heildarmyndina og getu sjóðanna að standa við lífeyrisloforð sín í framtíðinni. Til þess að áunnin réttindi sjóðfélaga haldi sér þarf raunávöxtun sjóðanna að vera 3,5 prósent á ári að meðaltali. Meðalávöxtun síðustu fimm ára er oft notuð sem mælikvarði, hvort það markmið hafi náðst. Meðalraunávöxtun síðustu fimm ára var ívið betri en árin 2002- 2006 en þá var ávöxtunin um 8,3% að meðaltali á ári. Fimm ára meðalraunávöxtun sjóðanna vegna áranna 2003 til 2007 var hins vegar 9,0% og hefur aldrei verið betri. Tíu ára raunávöxtun sjóðanna hefur líka verið framúrskarandi eða að meðaltali um 5% til 7%.
Um 10% aukning varð á eigum lífeyrissjóðanna á síðasta ári samanborið við eignir sjóðanna í árslok 2006. Heildareignir námu alls rúmlega 1.647 milljarða króna í lok desember s.l. miðað við 1.501 milljarða króna í árslok 2006. Aukningin nemur því um 146 milljarða króna. Mesta aukningin var í íbúðabréfum 22,4%. Sjóðfélagalán hafa aukist um 20,4% á umræddu tímabili og nema nú lán til sjóðfélaga um 8,0% af heildareignum sjóðanna. Heldur dró úr aukningu á innlendum hlutabréfum og erlendri verðbréfaeign vegna lækkunar á verðbréfamörkuðum síðustu mánuði ársins. Þannig nam erlend verðbréfaeign um 28% af eignum sjóðanna í árslok í fyrra, sem er nokkuð lægra hlutfall en árið á undan. Hafa ber í huga að styrking á gengi krónunnar á sinn þátt í lækkuðu hlutfalli erlendra eigna á árinu 2007.
Miklar breytingar og sviptingar hafa verið á verðbréfamörkuðum á þessu ári. Gengi íslensku krónunnar veiktist um hvorki meira eða minna en 23% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Gengi krónunnar ræðst nú alfarið af ástandi fjármálamarkaða og hefur að mestu aftengst grundvallarþáttum í íslenskum þjóðarbúskap. Skýrasti vitnisburðurinn um breytta tíma var hækkun á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um niðurskurð þorskveiðiheimilda sumarið 2007. Þá ræðst gengi krónunnar einnig af áhuga erlendra spákaupmanna á vaxtamunarviðskiptum, en krónan flokkast með hávaxtagjaldmiðlum. Hlutabréfamarkaðir lækkuðu um allan heim á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ávöxtun íslensku Úrvalsvísitölunnar að teknu tilliti til arðgreiðslna var neikvæð um tæplega 19%.
Ljóst er að íslensku bankarnir eiga við mikinn vanda að stríða, sem m.a. kemur fram í því að skuldatryggingarálag þeirra hefur aukist mjög mikið. Þessi óvissa um á fjármálamörkuðum, samfara lausafjárþurrð, hefur haft í för með sér að gengi bankanna í Kauphöllinni hefur lækkað umtalsvert, en þeir eru mjög stórir í íslensku Úrvalsvísitölunni. Ýmsir aðrir þættir hafa líka mikil áhrif á verðbréfamarkaðina hérlendis og erlendis. Má þar nefna slaka afkomu erlendra fjármálafyrirtækja og verulegrar afskriftir þeirra vegna húsnæðisbréfa. Hér heima hefur endurmat á lánshæfi ríkisins og banka einnig sín áhrif, svo og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans samhliða aukinni verðbólgu. Ljóst er að árið í ár verður ár mikilla sviptinga í efnahagslífi okkar Íslendinga og reyndar ekki síður út í hinum stóra heimi. Hvernig íslensku lífeyrissjóðum mun reiða af í þessum ólgusjó efnahagsmála er erfitt um að spá, en þó er ljóst að veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hefur skilað sér í aukinni arðsemi erlendra eigna. Lækkun innlendra og erlendra hlutabréfa, skuldatryggingaálag bankanna og aðrir óvissuþættir, skipta þó miklu máli þegar upp er staðið og árið verður gert upp. Þá skiptir sköpum hvernig til hefur tekist á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum.
Góðir fundarmenn.
Eitt af meginhlutverkum Landssamtaka lífeyrissjóða er að vera málsvari sjóðanna í þeim málum sem varða heildarhagsmuni þeirra og koma á framfæri sjónarmiðum samtakanna við stjórnvöld og aðra aðila í öllum meiriháttar málum sem varða sameiginlega hagsmuni aðildarsjóðanna. Í þessu felst mikið starf sem unnið er á vettvangi samtakanna í góðu samstarfi við aðildarsjóðina.
Á síðasta ársfundi gat ég um tvo málefni, sem tekið hafa drjúgan tíma hjá Landssamtökum lífeyrissjóða og aðildarsjóðum þeirra.
Í fyrsta lagi er um að ræða fræðslumálin. Margt hefur færst í rétta átt á umliðnum mánuðum, í þeim málaflokki og nefndi ég þar fyrst og fremst nýjan fræðsluvef Landssamtaka lífeyrissjóða um lífeyrismál “gottadvita.is” sem opnaður var í október s.l. Nú er stefnt að tveimur viðbótum á fræðsluvefnum til að auka almenna þekkingu á lífeyrismálum.. Annars vegar fræðslumyndbönd um nokkrar grundvallarspurningar og hins vegar gerð sérstakrar “Réttindabókar lífeyrissjóðanna”, þar sem fram munu koma upplýsingar um áunnin ellilífeyrisréttindi á einum stað.
Í annan stað nefni ég aftur örorkumálin. Eitt megin viðfangsefni LL er að finna leiðir til að draga úr fjölgun öryrkja með markvissari úrræðum í endurhæfingarmálum í samvinnu við stjórnarvöld og aðila vinnumarkaðarins. Einnig fer nú fram vinna á vegum samtakanna að því verkefni að einfalda og skýra samspil bóta frá almannatryggingum og lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna, m.a. með því að brjótast út úr víxlverkun og gagnkvæmri skerðingu bóta.
Nú er starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem vinna skal að endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins. Framkvæmdastjóri LL á sæti í nefndinni f.h. samtakanna. Ég bind miklar vonir við starf nefndarinnar og að góð sátt náist um þær tillögur sem hún hyggst leggja fyrir á næsta vetri.. Væntanlegar tillögur LL um samspil bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna er gott veganesti í það nefndarstarf.
Í nýgerðum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins er yfirlýsing um stofnun sérstaks Endurhæfingarsjóðs. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir á samningsviði ASÍ og SA greiði til Endurhæfingarsjóðs frá ársbyrjun 2010 sama hlutfall af launastofni og launagreiðendur. Þá liggur einnig fyrir að ríkissjóður leggi sjóðnum til sömu upphæð og launagreiðendur. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að ASÍ og SA leiti leiða til þess að aðrir lífeyrissjóðir greiði til Endurhæfingarsjóðs, eftir því sem við á, þannig að full framlög fáist til sjóðsins vegna þeirra einstaklinga sem endurhæfingargjald er greitt af.
Stjórn LL styður stofnun Endurhæfingarsjóðsins og telur í því sambandi nauðsynlegt að gera ráð fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna við undirbúningsvinnu að stofnun og starfsrækslu sjóðsins. Þeim tilmælum var beint til SA og ASÍ að haft verði náið samráð við Landssamtök lífeyrissjóða strax á fyrstu stigum málsins og hefur verið vel tekið í þá málaleitan. Búið er að halda fund með framkvæmdastjórum ASÍ og SA þar sem farið var yfir stöðu málsins aðkomu lífeyrissjóða á þeirra samningssviði vegna innheimtu endurhæfingargjaldsins hjá atvinnurekendum, en innheimta þess hefst 1. júní nk.
Miklu skiptir að vel takist til með starfsemi Endurhæfingarsjóðs, en tilgangur með starfsemi hans er að stórefla starfsendurhæfingu í landinu með markvissum aðgerðum og koma fólki á ný til starfa eins fljótt og mögulegt er og áður en fólk festist í örorku sem illmögulegt hefur reynst mörgum að losna undan.
Allt umhverfi lífeyrissjóðanna er á sífelldri hreyfingu. Sú þróun heldur áfram að lífeyrissjóðir sameinast. Á síðasta ári fækkaði lífeyrissjóðum um fimm vegna sameininga og þessi þróun hefur haldið áfram á þessu ári. Á einum áratug hefur lífeyrissjóðum hér á landi fækkað um 30, eða úr 66 í árslok 1997 í 36 í árslok 2007. Á sama tíma hafa sjóðirnir verið að stækka og eflast.
Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist upp á sjóðsöfnun en ekki á gegnumstreymi eins og almannatryggingakerfið. Flestar þjóðir í Evrópu eiga í miklum vanda vegna þess að ekki hefur verið hirt um að safna í sjóði fyrir væntanlegum lífeyrisgreiðslum. Þann vanda eigum við Íslendingar blessunarlega ekki við að etja, þó svo að útkoma lífeyrissjóðanna á síðasta ári sé vissulega áhyggjuefni en hafi þó lítil áhrif á heildarmyndina. Heildareignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru í fyrsta skipti orðnar þær mestu í heiminum, samkvæmt tölum frá Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni, OECD. Samkvæmt tölunum, sem eru frá árinu 2006, voru eignir íslensku lífeyrissjóðanna 132,7% af vergri landsframleiðslu það ár, nokkuð meiri en sparnaður Hollendinga og Svisslendinga.
Að meðaltali var lífeyrissparnaður 72,5% af landsframleiðslu hjá OECD ríkjunum í árslok 2006, en var 70,7% í árslok 2005. Auk landanna þriggja, sem nefnd eru hér að framan voru þrjú lönd til viðbótar með hlutfall yfir meðaltalið, þ.e. Ástralía, Bretland og Bandaríkin, 73,7%. Finnland var rétt neðan við meðaltalið.
Í Danmörku var hlutfall lífeyrissparnaðar af landsframleiðslu 32,%, í Svíþjóð 9,5% og í Noregi um 7%. Hafa ber í huga að í þessum löndum eru til sjóðsmyndandi lífeyriskerfi, sem tilheyra almannatryggingakerfum landanna, t.d. norski olíusjóðurinn, ATP-sjóðurinn í Danmörku og AP-sjóðirnir í Svíþjóð og skekkir það nokkuð myndina í þessum samanburði, en breytir þó ekki þeirri staðreynd að Ísland er í fyrsta sæti í heiminum.
Því er engin ástæða til að hafa áhyggjur yfir stöðu sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar, sem byggja á sjóðsöfnun og mismunandi fjárfestingarárangri milli ára. Aðalatriðið er að sjóðirnir geti staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar til lengri tíma litið. Þrátt fyrir slaka ávöxtun á síðasta ári, eru allar líkur á því að sjóðirnir muni standa við öll sín lífeyrisloforð í ár. Hins vegar eru ekki líkur á því að þeir geti á þessu ári aukið lífeyrisréttindi sín umfram gefin lífeyrisloforð. Á undanförnum árum hafa margir lífeyrissjóðir aukið lífeyrisréttindi sjóðfélaga vegna mjög góðrar ávöxtunar.
Landsamtök lífeyrissjóða stóðu fyrir fjölmörgum fræðslufundum á starfsárinu um margvíslegt málefni er varða starfsemi sjóðanna. Síbreytilegt starfsumhverfi kallar á öflugt og fjölþætt starf Landsamtakanna og um leið náið samstarf við lífeyrissjóðina í landinu. Eitt er sá þáttur sem vegur þungt í starfi samtakanna, en það eru samskipti við stjórnvöld og Alþingi þar sem fjallað um starfsumhverfi lífeyrissjóðanna. Á vegum LL hafa verið starfandi sérstakir starfshópar sem hafa fjallað um einstök málefni.
Á stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í lok janúar á þessu ári var farið sérstaklega yfir þessi mál. Í framhaldinu voru myndaðir nokkrir vinnuhópar sem fjalla um afmörkuð málefni. Einn þessara hópa fjallar um samspil bótagreiðslna almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna. Hópnum er falið að koma með tillögur sem miða að því að brjótast út úr þeirri vonlausu stöðu víxlverkunar og gagnkvæmrar skerðingar bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þá var hópnum einnig falið að leggja fram hugmyndir sem miða að einföldum lífeyriskerfisins. Á sama tíma er einnig starfandi sérstök verkefnastjórn á vegum félagsmálaráðherra um endurskoðun Almannatryggingakerfisins. Það er mjög að hinu góða að lífeyrissjóðirnir og viðkomandi stjórnvöld skuli samtímis leggja mikla vinnu í það brýna verkefni að draga úr gagnkvæmum skerðingum bóta, en þessi mál hafa í gegnum tíðina skaðað ímynd lífeyriskerfisins. Hvernig til tekst í þessum málum skýrist á næstu mánuðum, en verkefnið er gríðarlega flókið og gildir þá einu hvort um er að ræða hlut lífeyrissjóðanna eða alamannatryggingakerfisins.
Meðal mála á þessum aðalfundi eru tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum LL. Meginbreytingin felst í því að lagt er til að fulltrúaráð samtakanna verði lagt niður. Ástæðan fyrir þeirri tillögu er einkum sú að frá því Landsamtökin lífeyrissjóða voru stofnuð, fyrir tæpum áratug, hefur lífeyrissjóðum fækkað um tæplega þrjátíu. Haustfundir LL hafa verið vettvangur fulltrúaráðsins og gerir stjórnin ráð fyrir að haustfundirnir verði áfram fastur liður í starfseminni og hafa fulltrúar aðildarsjóðanna þá sama aðgengi að þeim og að aðalfundum samtakanna.
Frá síðasta aðalfundi fyrir réttu ári hafa verið haldnir 11 stjórnarfundir, en auk þess hafa verið haldnir fjölmargir fundir í starfshópum. Þá hefur fráfarandi stjórn samþykkt að framvegis verði haldnir tveir stjórnarfundir á ári þar sem aðal- og varastjórn munu sitja, en annars eru varafulltrúar eingöngu boðaðir til stjórnarfunda í forföllum stjórnarmanna. Allt miðar þetta að því að gera starfsemi LL í senn enn öflugri og skilvirkari.
Ég vil að lokum fyrir hönd stjórnar Landsamtaka lífeyrissjóða þakka Hrafni Magnússyni, framkvæmdastjóra LL, og lífeyrissjóðunum í landinu fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á liðnu starfsári.
Að endingu þakka ég samstjórnarmönnum fyrir mjög gott samstarf. Einn úr þeirra hópi, Margeir Daníelsson, lætur af stjórnarstörfum á þessum aðalfundi, en hann hefur átt sæti stjórn LL frá stofnun samtakanna í desember 1998. Við þetta tækifæri færi ég Margeiri innilegar þakkir fyrir giftudrjúg störf í þágu Landssamtaka lífeyrissjóða. Þar stóð hann í fremstu víglínu og stýrði auk þess stórum lífeyrissjóði með sóma á tímum mikilla umbreytinga í íslensku atvinnu- og fjármálalífi.