Afskiptaleysi lífeyrissjóða heyrir sögunni til

Afskiptaleysi lífeyrissjóða heyrir sögunni til

Afskiptaleysi lífeyrissjóða heyrir sögunni til

Fáheyrt var fyrir fáeinum árum að fulltrúar lífeyrissjóða skiptu sér af stefnumótun, launamálum stjórnenda, stjórnarkjöri eða öðrum álíka viðfangsefnum á aðalfundum og hluthafafundum félaga sem sjóðirnir áttu hlut í. Lífeyrissjóðir litu fyrst og fremst á sig sem óvirka langtímafjárfesta og þannig litu aðrir hluthafar líka á þessa meðeigendur sína.

Nú eru breyttir tímar og fulltrúar margra lífeyrissjóða virkir í eigendahópum fyrirtækja en taka gjarnan fram að þeir skipti sér ekki af daglegum rekstri. Hins vegar vilji sjóðirnir taka þátt í að móta til dæmis meginstefnu og starfskjarastefnu, hafa áhrif á launakjör stjórnenda og skipan stjórnar.

Lífeyrissjóðir opinberuðu helst ekki athugasemdir eða afstöðu sína á aðalfundum félaga en það er líka breytt. Í viðtali hér á Lífeyrismál.is  sagði Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands að Gildi-lífeyrissjóður hefði fyrstur komið fram með ítarlega og nokkuð afgerandi hluthafastefnu og „fyrstur lífeyrissjóða tekið að birta hvernig hann greiddi atkvæði á hluthafafundum og hverja hann styddi í stjórnarkjöri.“ Jafnframt hefði Gildi að mörgu leyti látið sig stjórnarhætti meira varða, heldur en flestir eða allir aðrir lífeyrissjóðir.“

Fleiri lífeyrissjóðir hafa fetað í þessa slóð. Þannig upplýsti Birta lífeyrissjóður í fyrsta sinn á vef sínum núna í ágústmánuði um atkvæðagreiðslur og tillögur sínar á aðalfundum 15 skráðra félaga í ár. Sjóðurinn kvaðst með þessu vilja sýna hvernig eigendastefna sín væri framkvæmd, stefna sem ætlað væri að „vera til leiðbeiningar um þær kröfur sem sjóðurinn gerir til góðra stjórnarhátta og umhverfislegra- og félagslegra þátta í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í á hverjum tíma.“

Fjárfestingum og aukinni virkni lífeyrissjóða sem meðeigendum fyrirtækja fylgir umræða af ýmsum toga um starfsemi sjóðanna. Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt og skapar um leið tækifæri til skoðanaskipta og upplýsingamiðlunar.

Þegar öllu er á botninn hvolft blasa við breytt viðhorf og breytt vinnubrögð lífeyrissjóða gagnvart félögum þar sem þeir eiga eigendahagsmuna að gæta. Lífeyrissjóðirnir eru ekki lengur áhorfendur á hliðarlínunni. Þeir eru komnir inn á völlinn, taka fullan þátt í leiknum og hafa frumkvæði í sókn eða vörn ef þeim þykir þörf á að taka af skarið.

Við höfum að sjálfsögðu tekið líka þátt í umræðunni hér á Lífeyrismál.is og vísum á nokkur áhugaverð viðtöl um áleitnar spurningar og viðfangsefni sem tengjast lífeyrissjóðum, stjórnun þeirra og fjárfestingum.

Lára Jóhannsdóttir, lektor í Háskóla Íslands: Sjálfbærni – umhverfi – samfélagsleg ábyrgð. 

Kristján Guy Burgess, sjálfstætt starfandi ráðgjafi: Ábyrgar fjárfestingar gefa í vaxandi mæli góða ávöxtun. Glærur frá fundi 19. október 2017  

Morgunfundur Iceland SIF og Landssamtaka lífeyrissjóða: Siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða. Glærur frá fundi 26. apríl 2018

Dr. Eyþór Ívar Jónsson lektor í Háskóla Íslands: Stjórnarhættir lífeyrissjóða ættu að vera öðrum til fyrirmyndar