Á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða 2019 sem haldinn var í Hörpu 28. maí tók Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, við formennsku samtakanna annað árið í röð. Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, er varaformaður.
Þrír stjórnarmenn voru endurkjörnir í níu manna stjórn samtakanna: Guðrún Hafsteinsdóttir, Lífeyrissjóði verzlunarmanna, Haukur Hafsteinsson, LSR og Ingibjörg Ólafsdóttir, Gildi - lífeyrissjóði.
Aðrir stjórnarmenn eru Arnaldur Loftsson, Erla Jónsdóttir, Gylfi Jónasson, Halldóra Káradóttir, Valmundur Valmundsson og Jakob Tryggvason.
Í varastjórn var endurkjörin Hulda Rós Rúriksdóttir, Almenna lífeyrissjóðnum. Aðrir í varastjórn eru Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Íslenska lífeyrissjóðnum og Sigurbjörn Sigurbjörnsson, SL lífeyrissjóði.
Aðalfundarstörfin voru annars hefðbundin.
Í ávarpi stjórnarformanns kom fram að það hefði breytt miklu fyrir starfsemi lífeyrissjóða að fjármagnshöftum var aflétt á árinu 2017. Umsvif á íslenskum verðbréfamarkaði hefðu vissulega verið minni en ella á árinu 2018 vegna þess hve mikið fjármagn var flutt úr landi í kjölfar afnáms hafta en það væri verið eðlilegt í sjálfu sér og ekkert sem kæmi á óvart.
Núna í mars 2019 hefði svo innflutningshöftum fjármagns verið aflétt að fullu. Það hefði sömuleiðis sín áhrif og kynni að leiða til meiri umsvifa í Kauphöllinni en sé fyrst og fremst til marks um áhuga erlendra fjárfesta á möguleikum á Íslandi og stuðningsyfirlýsing við íslenskt fjármálakerfi og íslenskt samfélag.
Á aðalfundinum var meðal annars samþykkt nýtt lógó fyrir landssamtökin. Sjá frétt um nýtt lógó