Stefnt er því að 1. júlí 2017 taki gildi sú breyting í lífeyrissjóðakerfinu að sjóðfélagar geti tekið hluta lögbundins skylduiðgjalds í lífeyrissjóði sína og sett í sérstaklega skilgreinda séreign. „Þetta verður ein stærsta breytingin í lífeyrissjóðakerfi landsmanna í áratugi,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins samþykktu í janúar 2016 að iðgjöld atvinnurekenda í lífeyrissjóði skyldu hækka í þremur áföngum um 3,5% á árunum 2016, 2017 og 2018. Iðgjöld launafólks yrðu óbreytt, 4%.
Þannig verða iðgjöld í lífeyrissjóði komin í 15,5% 1. júlí 2018 (atvinnurekendur 11,5% + launafólk 4% = 15,5%).
Stærstu tíðindin eru þau að sjóðfélagar geta ráðstafað sjálfir viðbótariðgjaldinu, alls 3,5%, í séreign. Sú séreign er „tilgreind“ og lýtur að ýmsu leyti öðrum lögmálum en annar séreignarsparnaður er þekktur fyrir.
Tilgreind séreign erfist samt líkt og annar séreignarsparnaður en hana má ekki nýta til húsnæðiskaupa.
Tilgreinda séreign má ekki byrja að greiða út fyrr en fimm árum fyrir hefðbundinn lífeyristökualdur en miðað er við sextugt í öðrum séreignarsparnaði.
Undirbúningur málsins miðaðist lengi vel við að lögfesta yrði breytinguna á Alþingi svo hún tæki gildi núna. Vorið 2017 kom fram sú túlkun í fjármála-og efnahagsráðuneytinu að breytingin rúmaðist innan ramma gildandi laga. Fjármálaeftirlitið er sama sinnis.
Lífeyrissjóðirnir á almennum vinnumarkaði verða því einungis að breyta samþykktum sínum og hafa boðað til aukaársfunda af þessu tilefni 21.-27. júní næstkomandi til að fjalla um og afgreiða nauðsynlegar samþykktarbreytingar.