Formannsskipti í Framtakssjóðnum

Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála og fasteignareksturs í Háskólanum í Reykjavík, er nýr formaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands. Hann tók við af Ágústi Einarssyni prófessor á stjórnarfundi í kjölfar aðalfundar sjóðsins í dag. Stjórn Framtakssjóðs var endurkjörin að öðru leyti en því að Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar, bættist í hópinn í stað Ágústs Einarssonar.

Ágúst hefur verið stjórnarformaður frá því Framtakssjóður Íslands (FSÍ) var stofnaður af sextán lífeyrissjóðum í desember 2009. Hann gaf þá vilyrði fyrir því að sitja í stjórninni í tvö til þrjú ár eða þar til sæi fyrir enda uppbyggingarskeiðs í starfseminni. Á dögunum tilkynnti hann Arnari Sigurmundssyni, stjórnarformanni Landssamtaka lífeyrissjóða, að stjórnarseta sín myndi hins vegar ekki vara nema í liðlega hálft annað ár vegna þess að hann teldi uppbyggingarskeiðinu vera lokið og hlutverki sínu þar með. Ágúst reifaði þessa niðurstöðu sína frekar á aðalfundinum í dag. Arnar Sigurmundsson, sem var fundarstjóri á aðalfundi Framtakssjóðsins, þakkaði honum afar vel unnin störf og kvaðst jafnframt hafa lagt að Ágústi að sitja í stjórnini eitt ár enn en án árangurs!

Nýr stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, Þorkell Sigurlaugsson, er viðskiptafræðingur að mennt og þrautreyndur í viðskiptalífinu. Hann starfaði lengi sem framkvæmdastjóri Eimskips og síðar sem framkvæmdastjóri Burðaráss, fjárfestingarfélags Eimskips, áður en leiðin lá til Háskólans í Reykjavík. Hann hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og skrifað bækur um stjórnun í atvinnurekstri og fleira því tengt.

Auk Þorkels og Hjörleifs Pálssonar sitja í stjórn Framtakssjóðs Íslands Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs VÍS, Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins - LSR, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringar Landsbanka Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármögnunar og fjárstýringar hjá Marel.

Ágúst og Arnar á aðalfundi FSÍ

 Arnar Sigurmundsson, formaður LL og Ágúst Einarsson, fyrrverandi formaður FSÍ.