Er allt jafn kolómögulegt?

Ragnar Önundarson, varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands, skrifar ákaflega merkilega grein í Morgunblaðinu í dag.
Í greininni segir  Ragnar m.a.: "Lífeyrissjóðir ætla ekki að sitja hjá í fyrstu umferð og fá að komast að í annarri umferð, eins og síðast. Þeir eiga nú um 200 milljarða króna í reiðufé á lágri ávöxtun á bankareikningum. Þeir eru nú um stundir eina innlenda aflið sem um munar til stærri fjárfestinga. Þeir ætla ekki að vera hlutlaus fjárfestir sem aðrir geta notað sér til stuðnings við að endurheimta fyrra veldi. Þeir ætla að vera áhrifafjárfestar og beita afli sínu til að koma vexti og atvinnusköpun í gang, og endurheimta sem mest af þeirri ávöxtun sem tapaðist. Í þessu skyni hafa þeir stofnað Framtakssjóðinn, sjóðfélögum sínum til heilla."

Grein Ragnars birtist hér í heild sinni:

Er allt jafn kolómögulegt?
 
Umræðan um Framtakssjóð Íslands slhf. (FSÍ) er sérkennileg. Engu er líkara en farið hafi með öllu framhjá fólki til hvers hann er ætlaður og hvað hann hefur verið að gera. Vegna þessa ætla ég að rifja upp nokkur þau atriði sem mér finnst skipta mestu máli. FSÍ var stofnaður af 16 lífeyrissjóðum og eru stærstu sjóðirnir meðal þeirra. Sjóðurinn er því eign almennings. Tilgangurinn er að endurheimta sem mest af þeirri ávöxtun sem tapaðist í hruninu. Um 22% af eignum sjóðanna voru afskrifuð í bókum sjóðanna eftir hrunið en nokkuð hefur endurheimst, bjargast, í meðferð innheimtumanna. Við getum slegið föstu að tapið hafi verið nálægt 20%. Það er hörmulegt, en samt ber að hafa í huga að það er langtum minna en tap lánastofnana, sem töpuðu 65-70% af öllum sínum eignum. Hrunið svonefnda var hildarleikur af mannavöldum. Því ollu eigendur banka og stórra fyrirtækja, sem afgreiddu sig sjálfir í bönkunum. Féflettir hrundu bankarnir eins og spilaborgir og þar með töpuðust nánast allar kröfur nema forgangskröfur. Meðal þess voru skuldabréf sem þeir höfðu gefið út á almennum markaði. Lífeyrissjóðir voru eðlilega eigendur þeirra að mestu leyti því stærð þeirra er yfirgnæfandi. Að auki höfðu nokkur stórfyrirtækjanna sjálf gefið út skuldabréf á markaði. Þau reyndust fæst traustsins verð og töpuðust þessi bréf því að mestu. Á miklu veltur að áfram takist að endurheimta tapaða ávöxtun. FSÍ er eitt virkasta tækið sem sjóðirnir hafa í því skyni.

 

Hlutabréfamarkaður

 

Skipulegur hlutabréfamarkaður var ekki nema u.þ.b. 15 ára þegar hann hrundi til grunna árið 2008. Á upphafsárum markaðarins og mörg ár þar á eftir höfðu hlutabréf skilað jafnt og þétt góðri ávöxtun. Vissulega voru þar sveiflur eins og gerist á slíkum mörkuðum en þeir sem eignuðust dreift safn hlutabréfa fengu árvissa góða ávöxtun. Markaður með hlutabréf stærri fyrirtækja er óhemju mikilvægur í efnahagslífinu. Aðgengi þeirra að áhættufé skapar þeim traust og greiðslugetu. Skilvísi þeirra tryggir rekstur margra smærri fyrirtækja sem þeim þjóna. Vexti og atvinnuöryggi eru sköpuð skilyrði, en þetta tvennt er ávísun á velmegun og velferð. Það er hlutverk FSÍ að taka við lífvænlegum fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir hruninu. Hin stærri og stöðugri verða skráð í Kauphöll Íslands en hin smærri og áhættusamari verða seld, einhver að undangenginni endurskipulagningu. Sumir telja að fyrirtæki í eigu banka geti gengið í sjóði bankans og að slíkt skekki samkeppni. Til munu dæmi um þetta, en oftast er það orðum aukið. Hitt er enn skaðlegra að slík félög hafa ekki neinn raunverulegan eiganda. Bankinn mótar ekki stefnu félagsins og leyfir ekki fjárfestingar og uppbyggingu. Á nokkrum misserum tekur búnaður að úreldast og félagið dregst aftur úr í tækninni. Fyrirtæki í eigu bankans eflir ekki atvinnu og nýsköpun, kyrrstaða og stöðnun einkenna það fljótlega. Aðkoma FSÍ að endurreisn hlutabréfamarkaðarins er líkleg til að hraða framvindunni. Það er mikilvægt einmitt núna að snúa vörn í sókn, samdrætti í vöxt og draga úr atvinnuleysi. Þegar hlutabréfamarkaðurinn tekur að lifna við á ný getur orðið hröð framvinda. Líklegt er að sagan endurtaki sig, ávöxtun verður góð, ekki síst af því að markaðurinn rís alveg frá grunni.
 

Frumfjárfestar

 

Skemmst er að minnast þess að þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd voru það fjársterkir aðilar í sterkri aðstöðu, sem komust að kjötkötlunum. Þeir ráku þau um nokkurra missera skeið og skráðu þau síðan á markað á mun hærra verði, »til að gefa almenningi kost á að taka þátt í hlutabréfaviðskiptum«. Hagnaður þeirra var umtalsverður, jafnvel mikill. Forréttindaaðstaða, fákeppni og innherjaupplýsingar voru lykilatriði í velgengni margra þeirra. Ekki er víst að slíkir fjárfestar líti FSÍ hýru auga. Sumir »útrásarvíkingar« sluppu fyrir horn og náðu hagnaði sínum út áður en fyrirtækin hrundu undan fjárglæfrum þeirra. Þeir vilja líka fá að vera frumfjárfestar, þeim finnst þeir beinlínis eiga rétt á því, eftir allt það sem þeir gerðu fyrir samfélagið. Nú er Framtakssjóðnum hins vegar ætlað hlutverk frumfjárfestis. Lífeyrissjóðir ætla ekki að sitja hjá í fyrstu umferð og fá að komast að í annarri umferð, eins og síðast. Þeir eiga nú um 200 milljarða króna í reiðufé á lágri ávöxtun á bankareikningum. Þeir eru nú um stundir eina innlenda aflið sem um munar til stærri fjárfestinga. Þeir ætla ekki að vera hlutlaus fjárfestir sem aðrir geta notað sér til stuðnings við að endurheimta fyrra veldi. Þeir ætla að vera áhrifafjárfestar og beita afli sínu til að koma vexti og atvinnusköpun í gang, og endurheimta sem mest af þeirri ávöxtun sem tapaðist. Í þessu skyni hafa þeir stofnað Framtakssjóðinn, sjóðfélögum sínum til heilla.

Þetta hefur ekki mælst vel fyrir hjá sumum. Þeir eru daprir og svartsýnir, útsýnið um baksýnisspegilinn gefur þeim ekki tilefni til annars. Allt sem gert er er kolómögulegt, það að gera ekkert er líka ómögulegt. Þeir sem valist hafa til starfa fyrir sjóðinn gera eingöngu mistök, auk þess eru þeir líklega að byggja upp völd sín. Hinir döpru muna spillinguna vel og eiga beinlínis rétt á að hún sé enn fyrir hendi. Þeir endurtaka sig í sífellu á blogginu sínu og hringja inn á opnar spjallrásir og þylja þar bölbænir sínar. Skringilegar ályktanir stéttarfélaga hafa heyrst. Þær geta ekki gert neitt nema komið í veg fyrir að félagsmenn þessara sömu stétta njóti batans. Það er dapurleg hagsmunagæsla.

 

Er ekki mál að linni?
 

Viljum við virkilega vera svona? Eva Joly lýsti í viðtali við Morgunblaðið nýlega eftir hugrekkinu, hvað varð um það? spurði hún. Í nýlegri bók Reinhart & Rogoff »This time is different« rekja þau 180 efnahagslægðir sem orðið hafa í heiminum síðustu 200 árin. Að meðaltali líða tvö ár frá hruni þar til batinn gerir vart við sig. Önnur tvö ár líða þar til atvinnuleysið er gengið til baka. Reikna má með að viðsnúningurinn taki nokkru lengri tíma hjá okkur núna, hrunið var mun dýpra en venjuleg efnahagslægð. Á hinn bóginn er næsta víst að batinn bíður handan við hornið. Núna er rétti tíminn til að taka saman á og tryggja honum framgang. »Hver er sinnar gæfu smiður« segir máltækið. Það gildir líka um þjóðir, hugsum um það.

Höfundur er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands slhf.