Ragnar Önundarson, varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands, skrifar ákaflega merkilega grein í Morgunblaðinu í dag.
Í greininni segir Ragnar m.a.: "Lífeyrissjóðir ætla ekki að sitja hjá í fyrstu umferð og fá að komast að í annarri umferð, eins og síðast. Þeir eiga nú um 200 milljarða króna í reiðufé á lágri ávöxtun á bankareikningum. Þeir eru nú um stundir eina innlenda aflið sem um munar til stærri fjárfestinga. Þeir ætla ekki að vera hlutlaus fjárfestir sem aðrir geta notað sér til stuðnings við að endurheimta fyrra veldi. Þeir ætla að vera áhrifafjárfestar og beita afli sínu til að koma vexti og atvinnusköpun í gang, og endurheimta sem mest af þeirri ávöxtun sem tapaðist. Í þessu skyni hafa þeir stofnað Framtakssjóðinn, sjóðfélögum sínum til heilla."
Grein Ragnars birtist hér í heild sinni:
Hlutabréfamarkaður
Frumfjárfestar
Skemmst er að minnast þess að þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd voru það fjársterkir aðilar í sterkri aðstöðu, sem komust að kjötkötlunum. Þeir ráku þau um nokkurra missera skeið og skráðu þau síðan á markað á mun hærra verði, »til að gefa almenningi kost á að taka þátt í hlutabréfaviðskiptum«. Hagnaður þeirra var umtalsverður, jafnvel mikill. Forréttindaaðstaða, fákeppni og innherjaupplýsingar voru lykilatriði í velgengni margra þeirra. Ekki er víst að slíkir fjárfestar líti FSÍ hýru auga. Sumir »útrásarvíkingar« sluppu fyrir horn og náðu hagnaði sínum út áður en fyrirtækin hrundu undan fjárglæfrum þeirra. Þeir vilja líka fá að vera frumfjárfestar, þeim finnst þeir beinlínis eiga rétt á því, eftir allt það sem þeir gerðu fyrir samfélagið. Nú er Framtakssjóðnum hins vegar ætlað hlutverk frumfjárfestis. Lífeyrissjóðir ætla ekki að sitja hjá í fyrstu umferð og fá að komast að í annarri umferð, eins og síðast. Þeir eiga nú um 200 milljarða króna í reiðufé á lágri ávöxtun á bankareikningum. Þeir eru nú um stundir eina innlenda aflið sem um munar til stærri fjárfestinga. Þeir ætla ekki að vera hlutlaus fjárfestir sem aðrir geta notað sér til stuðnings við að endurheimta fyrra veldi. Þeir ætla að vera áhrifafjárfestar og beita afli sínu til að koma vexti og atvinnusköpun í gang, og endurheimta sem mest af þeirri ávöxtun sem tapaðist. Í þessu skyni hafa þeir stofnað Framtakssjóðinn, sjóðfélögum sínum til heilla.
Þetta hefur ekki mælst vel fyrir hjá sumum. Þeir eru daprir og svartsýnir, útsýnið um baksýnisspegilinn gefur þeim ekki tilefni til annars. Allt sem gert er er kolómögulegt, það að gera ekkert er líka ómögulegt. Þeir sem valist hafa til starfa fyrir sjóðinn gera eingöngu mistök, auk þess eru þeir líklega að byggja upp völd sín. Hinir döpru muna spillinguna vel og eiga beinlínis rétt á að hún sé enn fyrir hendi. Þeir endurtaka sig í sífellu á blogginu sínu og hringja inn á opnar spjallrásir og þylja þar bölbænir sínar. Skringilegar ályktanir stéttarfélaga hafa heyrst. Þær geta ekki gert neitt nema komið í veg fyrir að félagsmenn þessara sömu stétta njóti batans. Það er dapurleg hagsmunagæsla.
Viljum við virkilega vera svona? Eva Joly lýsti í viðtali við Morgunblaðið nýlega eftir hugrekkinu, hvað varð um það? spurði hún. Í nýlegri bók Reinhart & Rogoff »This time is different« rekja þau 180 efnahagslægðir sem orðið hafa í heiminum síðustu 200 árin. Að meðaltali líða tvö ár frá hruni þar til batinn gerir vart við sig. Önnur tvö ár líða þar til atvinnuleysið er gengið til baka. Reikna má með að viðsnúningurinn taki nokkru lengri tíma hjá okkur núna, hrunið var mun dýpra en venjuleg efnahagslægð. Á hinn bóginn er næsta víst að batinn bíður handan við hornið. Núna er rétti tíminn til að taka saman á og tryggja honum framgang. »Hver er sinnar gæfu smiður« segir máltækið. Það gildir líka um þjóðir, hugsum um það.
Höfundur er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands slhf.