Yfirlýsing frá úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða

Þann 24. júní 2010 ákvað stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða að fara þess á leit við ríkissáttasemjara að hann skipaði þriggja manna nefnd sérfróðra og óvilhallra einstaklinga sem fengju það hlutverk að gera úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi í október 2008.

Ríkissáttasemjari skipaði að lokum í nefndina þá Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómara, formann, Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðing og Guðmund Heiðar Frímannsson siðfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Nefndin réð Kristján Geir Pétursson lögfræðing sem starfsmann nefndarinnar og tók hún formlega til starfa þann 1. september í fyrra. Nefndin fékk fljótlega nafnið úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða. Hefur nefndin síðan skipulagt og stjórnað allri úttektinni.

Að gefnu tilefni vill úttektarnefndin koma því á framfæri að forsenda þess að nefndarmenn tóku að sér verkefnið á sínum tíma var að um óháða úttekt yrði að ræða. Það skal áréttað í þessu sambandi að Landssamtök lífeyrissjóða hafa engin afskipti haft af vinnu nefndarinnar frá því hún tók til starfa. Landssamtök lífeyrissjóða hafa á hinn bóginn staðið straum af öllum kostnaði vegna vinnu nefndarinnar og álitsgerða annarra sérfræðinga sem hún hefur leitað til.

Vinnu nefndarinnar miðar vel en það skal tekið fram að um mjög viðamikla úttekt er að ræða. Áætlar nefndin að úttekt á lífeyrissjóðunum verði lokið í nóvember nk.

Reykjavík 17. ágúst 2011