Yfirlýsing frá stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins

Sérstakur saksóknari hefur tilkynnt að hann hafi hætt rannsókn á meintum brotum á fjárfestingarheimildum Íslenska lífeyrissjóðsins og fjögurra annarra lífeyrissjóða sem voru í umsjá LBI hf. (Gamla Landsbankans) fyrir hrun. Í yfirlýsingu frá stjórn sjóðsins segir:

„Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins fagnar tilkynningu Sérstaks saksóknara þess efnis að embættið hafi látið af rannsókn á
meintum brotum á fjárfestingarheimildum Íslenska lífeyrissjóðsins og fjögurra annarra lífeyrissjóða.

Tilefni rannsóknar embættis sérstaks saksóknara var kæra FME þess efnis að Íslenski lífeyrissjóðurinn og fjórir aðrir lífeyrissjóðir hefðu farið út fyrir fjárfestingarheimildir á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008 og ekki upplýst FME með réttum hætti um fjárfestingar sínar. Athugun starfsmanna Landsbanka Íslands hf., núverandi rekstraraðila Íslenska lífeyrissjóðsins, leiddi hins vegar strax í ljós að mistök höfðu átt sér stað við úrvinnslu gagna sem leiddi til rangrar skýrslugjafar og þess að
vikið var frá fjárfestingarstefnu.

Þrátt fyrir skýringar starfsmanna lífeyrissjóðsins og einlægan samstarfsvilja rekstraraðila hans þá sá FME ástæðu
til að vísa málinu til Sérstaks saksóknara. Þá vék fjármálaráðherra, að tillögu FME, stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóra frá störfum og skipaði honum umsjónarmann í þeirra stað.

Stjórn sjóðsins gerði strax í upphafi alvarlegar athugasemdir við framgöngu FME í málinu enda var það mat hennar að
málið væri að fullu upplýst í ársbyrjun 2009.

Tilgangur rannsóknar Sérstaks saksóknara var að kanna hvort saknæm háttsemi hefði átt sér stað við rekstur og skýrslugjöf sjóðsins. Embættið hefur lokið rannsókn sinni með þessari niðurstöðu."