Yfirlýsing frá Landssamtökum lífeyrissjóða

Í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 29. mars sl. er fjallað um málefni lífeyrissjóða í löngu máli. Ekki verður komist hjá því að gera athugasemdir við forsendur og fullyrðingar sem blaðið gefur sér og ályktunum þess í framhaldinu. Forsíðutilvísun gefur lesandanum skýr fyrirheit um að nú skuli fletta ofan af hneyksli: „Staða lífeyrissjóða afhjúpuð“. Í tilheyrandi texta ber hæst fullyrðingar annars vegar um að raunávöxtun lífeyrissjóðanna á síðasta ári hafi verið „mun verri en fyrirliggjandi opinberar tölur gefa til kynna“ og hins vegar um lúxusferðir stjórnenda lífeyrissjóðanna á vegum fjármálafyrirtækja, „oftast undir þeim formerkjum að verið væri að kynna fjárfestingar og fjárfestingarkosti“ eins og segir í blaðinu.

Starfsemi lífeyrissjóða sætir umfangsmiklu eftirliti sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og samþykktum lífeyrissjóðanna. Löggiltir endurskoðendur staðfesta ársreikninga sjóðanna og annast innra eftirlit þeirra í samræmi við lög og reglur Fjármálaeftirlitsins (FME).   Ef það er svo að staða sjóðanna er önnur og verri en „fyrirliggjandi opinberar tölur gefa til kynna“ er Morgunblaðið að ásaka starfsmenn og stjórnir lífeyrissjóða og löggilta endurskoðendur um refsiverða háttsemi.  Slík ásökun er býsna alvarleg.  Vissulega ríkir mikil óvissa um verðmæti  verðbréfa í eigu lífeyrissjóðanna vegna hruns fjármálafyrirtækja og erfiðleika á mörkuðum innanlands og utan.  Við mat á eignum í lífeyrissjóðanna fyrir árið 2008 er byggt á bestu fáanlegum upplýsingum sem til staðar voru á uppgjörsdegi. Verðbréfaeign sjóðanna hefur því verið færð verulega niður í ársuppgjöri þeirra.   

Í fréttinni er fjallað um boðsferðir fjármálafyrirtækja sem sagt er að stjórnendur  lífeyrissjóðanna hafi tekið þátt í.  Þar er vísað til þess að stjórnendur lífeyrissjóða hafi þegið boð fjármálafyrirtækja um laxveiði í Rússlandi, á  knattspyrnuleik í Aþenu, boð á Formúlu 1,  í golf- og skíðaferðir og ýmis konar siglingar erlendis. Forsvarsmenn Landssamtaka lífeyrissjóða höfðu að þessu tilefni samband við stjórnendur nítján stærstu lífeyrissjóðanna, sem fara með yfir 93% heildareigna lífeyrissjóða landsmanna. Í ljós kom að enginn starfsmaður eða stjórnarmaður þessara lífeyrissjóða hafi verið í umræddum ferðum, með þeirri undantekningu að  fulltrúi eins lífeyrissjóðs var í einni ferðinni.     

Stjórnendur lífeyrissjóða kvarta ekki undan eðlilegri gagnrýni á starfsemi sjóðanna, en  byggja verður hana á traustari grunni en Morgunblaðið gerir í umræddum greinaflokki í helgarblaðinu.