Í upphafi erindis síns fjallaði Loftur um langtímafjárfestingu í hlutabréfum. Fyrir langtímafjárfesti er virði (value) reksturs fyrirtækis miklu mikilvægara en verð hlutabréfa fyrirtækisins. Þess vegna væri happadrýgra að horfa virði rekstrar en verð hlutabréfa, en oft gæri verið himinn og haf á milli þessara þátta.
Fjárfestar verða að gangast við skyldum sínum sem hluthafar í rekstri og þær skyldur verða ekki uppfylltar á markaðinum. Markaðurinn getur aftur á móti verið hjálplegur í sumum tilvikum og hlaupið í skarðið.
Þá fjallaði Loftur um það að frá rekstrarlegum sjónarhóli væru tvö hlutverk mikilvægust til að hafa áhrif. Í fyrsta lagi stefnumótun og í öðru lagi eftirlit. Nauðsynlegt væri að vera virkur í umræðu um leikreglur sem bæta stjórnsýslu fyrirtækja (corporate governence) og nýta viðurkenndar leiðir til spurninga og umræðu t.d. á hluthafafundum. Þá væri nauðsynlegt að veita stjórnendum og stjórn aðhald með leiðum sem tækar væru og væru innan ramma varðandi upplýsingagjöf.
Loftur minntist á Lífeyrissjóð starfsmanna Kaliforníuríkis CalPERS, sem hefur lagt mikla áherslu á stjórnsýslu fyrirtækja, m.a. hvað varðar sjálfstæði stjórnar og forystu, m.a. að meirihluti stjórnarmanna sé óháður og hittist a.m.k. einu sinni á ári án forstjóra og annarra stjórnarmanna. Einnig minntist Loftur á HERMES, sem á að baki langa sögu sem virkur hluthafi, byggt á þeirri skoðun að fyrirtæki með virka og áhugasama hluthafa sé líklegri, þegar horft er til langs tíma, að ná afburða fjárhagslegum árangri, heldur en þau fyrirtæki sem ekki hafa virka hluthafa.
Að lokum varpaði Loftur fram þeirri spurningu, hvort sjóðstjórar eða aðrir starfsmenn lífeyrissjóða ættu að sitja í stjórnum fyrirtækja. Slíkt gæti þótt æskilegt ef um upphafsfjárfestingu væri að ræða og sérstök ástæða til að fylgja viðkomandi fjárfestingu eftir, enda búi viðkomandi stjórnarmaður yfir þekkingu sem nýtist. Mögulegir gallar gætu hins vegar verið t.d. innherjastaða, sem væri óheppileg fyrir marga fjárfesta, svo og að eðlilegt aðhald mætti veita með öðrum og skilvirkari hætti.
LL-FRÉTTIR munu á næstunni greina frekar frá þessum fundi og framsöguerindum, en framsögumenn voru auks Lofts þeir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
|