Í Morgunblaðinu í gær er þess getið að Samtök banka og verðbréfyrirtækja telja brýnt í bréfi til fjármálaráðherra að lokað verði fyrir heimildir lífeyrissjóðanna til lífeyrissjóðalána eða þeim skorinn mun þrengri stakkur. Vegna þessarar árásar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja á lífeyrissjóðina vegna lánveitinga þeirra til sjóðfélaga telja Landssamtök lífeyrissjóða rétt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:
"Bann við lánunum rökstyðja SBV með samanburði við Norðurlöndin sem er óheppilegt að því leiti að þau eru mjög skammt á veg komin hvað lífeyrissparnað áhrærir og hófu ekki sjóðsöfnun með þeim hætti sem þekkist hérlendis fyrr en í byrjun síðasta áratugar svo dæmi sé tekið af Danmörku. Lífeyrissparnaður í Noregi mælist í einstafstölu sem hlutfall af landsframleiðslu meðan á Íslandi er hann u.þ.b. 100%. Þannig er eðlilegra að horfa til landa þar sem lífeyrissparnaður er meiri og á sér lengri sögu.
Ef horft er til Bandaríkjanna má sjá að CALpers, lífeyrissjóður opinberra starfsmanna Kalíforníuríkis, lánar sjóðfélögum sínum til fasteignakaupa og eru þessar lánveitingar mun umfangsmeiri en þekkist hérlendis. Á síðustu 13 árum hefur lífeyrissjóður kennara sama ríkis lánað 23.000 sjóðfélögum 2,7 milljarða dollara gegn fasteignaveði.
Lífeyrissjóðirnir hafa lánað til sjóðfélaga allt frá stofnun. Þannig hafa Samvinnulífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður verzlunarmanna lánað til sinna sjóðfélaga í tæp 50 ár og Lífeyrissjóður bankamanna enn lengur. Lífeyrissjóðir sem stofnaðir voru 1970 hófu fljótlega lánveitingar til sinna sjóðfélaga. Almennt lána lífeyrissjóðirnir, og þar með talinn Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sjóðfélögum lán með vaxtaálagi á ríkistryggð skuldabréf þannig að aðdróttunum SBV um óheilbrigða viðskiptahætti og fyrirframgreiðslu lífeyris er vísað á bug. Útlánatöp vegna þessara lánveitinga hafa verið hverfandi og vanskil lítil. Að lánveitingum þessum er staðið með faglegum hætti ekki síður en í bönkunum. Lífeyrissjóðslánin eru því góð viðbót við aðra eignarflokka í verðbréfasafni lífeyrissjóðanna.
Það hljóta allir landsmenn að sjá í gegnum látlausan áróður bankanna sem vilja sölsa undir sig alla lánastarfsemi í landinu. Þannig hamast þeir daginn út og inn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og nú þarf að henda lífeyrissjóðunum út af veðlánamarkaði. Allar fjölskyldur kunna sögur af lánveitingum bankanna til húsnæðismála. Þar var almennt engin lán að finna til fasteignakaupa þar til nýlega.
Staðreyndin er sú að bönkunum leiðist samkeppnin og vilja hafa þennan markað fyrir sig einan. Verður þá fyrst ömurlegt að búa á Íslandi þegar ekki verður hægt að leita fasteignatryggðra lána víðar en hjá bönkunum. Það er von Landssamtaka lífeyrissjóða að slík staða komi aldrei upp."