Viðskiptaráðherra lítt hrifinn af að opna séreignarsjóðina

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra telur að fólk eigi að halda í séreignarsparnaðinn sinn eins lengi og unnt sé frekar en nýta hann til að greiða niður skuldir. Þetta kom fram í svari við spurningu úr sal á borgarafundi í Háskólabíói í gærkvöld þar sem hann og fulltrúar verkalýðshreyfingar og lífeyrissjóðakerfisins sátu fyrir svörum. 

Fyrirspyrjandinn tók fram að hann teldi „mjög vafasamt að setja séreignarsparnaði í íbúð sem hvort eð er væri að brenna upp“, enda væri séreignin ekki aðfararhæf. Nær væri að „ráðleggja öllum að halda séreignarsparnaðinum frekar en henda honum á bálið“. Viðskiptaráðherra tók í raun að nokkru undir þessi sjónarmið í svari sínu þegar hann sagði orðrétt: „Hvað varðar séreignarsparnaðinn, nei, ég efast um að það sé mjög vitlegt að taka hann út og setja í íbúðabréf. Ég held að fólk eigi að sitja á honum ef það mögulega getur.“

 

„Ekki sársaukalaus“ afstaða ASÍ

Fundarboðendur töldu að um 700 manns hefðu verið í Háskólabíói þegar flest var, nokkru færri en fyrir hálfum mánuði þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu fyrir svörum á hliðstæðum fundi.  Meðal annars bar á góma hugmyndir sem ræddar eru á vettvangi stjórnvalda og víðar um að opna séreignarsjóði til að létta eigendum fjármunanna róðurinn í kreppunni.

 

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði að ASÍ hefði vissulega tekið undir slíkar hugmyndir, „enda höfum við ekki treyst okkur til að vera á móti þessu einfaldlega af því fólki þykir skrítið að standa frammi fyrir því að missa eignir sínar en eiga samt séreignarsparnað.“ Hann kvað slíkar yfirlýsingar ekki sársaukalausar því ASÍ-forystan hefði árum saman barist fyrir því að lífeyrir yrði ekki aðfararhæfur við gjaldþrot en hugmyndirnar opnuðu fyrir slíkt. ASÍ-forsetinn benti svo á að nú um stundir væri verð eigna af öllu tagi í lágmarki, hvort heldur horft væri til verðs fasteigna, skuldabréfa eða hlutabréfa. Séreignarsparnaður væri ekki ávaxtaður á bankabókum heldur í eignum sem þyrfti að losa um og selja og þær gætu þá rýrnað verulega ef til slíks kæmi.

 

Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sagði að nú ætti að „beina fjármagni lífeyrissjóða inn á við til að styrkja innviði samfélagsins.“ Hann er samþykkur því að „opna á séreignasparnaðinn“ en segir slíka ráðstöfun „fyrst og fremst lengingu í hengingarólinni eins og allar aðrar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar.“ Til dæmis hefðu stjórnvöld „hlýtt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, hækkað dráttarvexti um 50% og keyrt þar með upp alla vexti“. Nú væri verkefnið hins vegar að lækka vextina.

 

 

 

Aðalatriðið að sjóðir standi við skuldbindingar sínar

 

Nokkrir fundarmenn gagnrýni fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og sömuleiðis að atvnnurekendur ættu fulltrúa í stjórnum sjóðanna. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði að fjárfestingarstefnunni væri settar þröngar skorður í lögum og vel væri fylgst með framkvæmd hennar af hálfu sjóðsstjórna og Fjármálaeftirlitsins. Fjárfestingar hefðu skilað lífeyrissjóðum mjög góðri ávöxtun undanfarin fimm ár en sjóðirnir hefðu svo fengið „bylmingshögg“ við fall bankanna í haust. Mestu máli skipti samt að sjóðirnir gætu greitt þann lífeyri sem þeir hefðu lofað og allt benti til þess að þeir myndu standa við skuldbindingar sínar þrátt fyrir allt.

 

Hrafn sagði  eignatjón sjóðanna víðsfjarri tölum sem heyrðust nefndar á opinberum vettvangi undanfarið og vísaði þar til endurtekinna fullyrðinga í ljósvakaþáttum um að tapast hefðu 40% eigna og jafnvel meira. Hann sagðist ekki geta nefnt nákvæmar tölur um tjónið en benti á að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði til dæmis birt upplýsingar um ríflega 14% eignatjón vegna áfalla fjármálakreppunnar í október en teldi sig samt komast hjá því að skerða lífeyrisgreiðslur á næsta ári. Trúlegt væri að tjón margra annarra sjóða væri hlutfallslega líkingu við það sem gerðist hjá verzlunarmönnum.

 

 

 

Vilja hafa fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna

 

Gylfi Arnbjörnsson sagði að verkalýðsforystan teldi mikilvægt að atvinnurekendur ættu fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna. Af og frá væri samt að þeir hefðu „óheftan aðgang að fjármunum sjóðanna“. Fjárfestingarnar væru sameiginleg ákvörðun fulltrúa verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda í sjóðsstjórnum. Vissulega hefði sýnt sig í haust að fyrirtæki, sem lífeyrissjóðir fjárfestu í, hefðu ekki verið eins traust og haldið var og fjármunir því tapast. Hins vegar hefðu lífeyrissjóðir líka hagnast mikið á að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum og myndu halda áfram að fjárfesta í atvinnulífinu.

Lífeyrissjóðir væru óaðskiljanlegur hluti kjarasamninga frá 1969 og nærvera atvinnurekenda í sjóðsstjórnum stuðlaði að því að deila ábyrgð á réttindum launafólks. Atvinnurekendur tækju þannig upplýstar ákvarðanir um að auka greiðslur sínar í sjóðina og þess vegna greiddu þeir nú helminingi meira í lífeyrissjóðina en árið 1969: „Við viljum hafa fulltrúa atvinnurekenda með okkur í stjórnum lífeyrissjóða, enda þarf hvort eð að semja við þá um málefni sjóðanna.“