Við ráðum ferðinni

Hinn 27. ágúst sl birtist frétt á mbl.is með yfirskriftinni „Lífeyrisþegar fleiri en launamenn". Í  fréttinni var sagt frá því að fleiri þægju nú lífeyrisgreiðslur en laun í Rúmeníu og það gæti stefnt rúmensku hagkerfi í verulega hættu á næstu árum. Í sömu frétt kemur fram að svissneska  tryggingafélagið Swiss Re telji helsta áhyggjuefnið í þýsku hagkerfi vera stöðu eftirlaunaþega þar sem lífslíkur aukist jafnt og þétt en fæðingum fækki. Á Íslandi er því einnig spáð að vægi  eftirlaunaþega af heildaríbúafjölda aukist á næstu áratugum. Við búum hins vegar að því að hafa haft framsýni til að byggja upp öflugt lífeyriskerfi. Því erum við betur undirbúin en  margar aðrar þjóðir til að takast á við breytta aldurssamsetningu.

Þjóðfélagið breytist
Hagstofa Íslands gaf út nýja mannfjöldaspá í ágúst fyrir tímabilið 2013 til 2060. Samkvæmt  spánni mun meðalævi Íslendinga halda áfram að lengjast og mun meðalævi nýfæddra drengja lengjast úr 80,8 ár í 86,8 ár og nýfæddra stúlkna úr 83,9 ár í 88,2 ár. A sama tíma er gert ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem ná ellilífeyrisaldri nær tvöfaldist en samkvæmt spánni voru 11,2% mannfjöldans 67 ára og eldri árið 2013 en árið 2060 verður hlutfallið 22,6%. Afleiðing þessarar þróunar er að einstaklingum á vinnualdri á móti hverjum lífeyrisþega fækkar úr 6,1 árið 2013 í 2,7 árið 2060 (sjá mynd).

Við ráðum ferðinni graf
Gangi þessar spár eftir mun breytt aldurssamsetning hafa í för með sér einhverjar mestu þjóðfélagsbreytingar sem íslensk þjóð hefur gengið í gegnum á stuttum tíma. Við þurfum að búa okkur undir þessar breytingar og byrja strax því tíminn líður. Meðal helstu verkefna er að endurskoða almannatryggingakerfið og sjá til þess að kerfið tryggi lágmarksframfærslu, styrkja heilbrigðiskerfið þannig að það geti veitt framúrskarandi þjónustu og annast fleiri eldri sjúklinga, byggja upp og treysta innviði samfélagsins þannig að þjóðfélagið nýti vinnuafl og þekkingu eins vel og hægt er.
Einnig þarf að yfirfara eftirlaunaaldur og gera breytingar til að auka sveigjanleika í töku lífeyris m.a. til að auðvelda fólki að vinna lengur. Íslendingar hafa sýnt fyrirhyggju og byggt upp öflugt lífeyriskerfi sem auðveldar okkur að takast á við þessar breytingar. Mikilvægt er að hlúa vel að lífeyriskerfinu svo það geti staðið undir því hlutverki sínu að greiða ævilangan lífeyri.

Lífeyrir er óháður aldurssamsetningu
Íslensku lífeyrissjóðirnir byggja á sjóðsöfnun eða að hver kynslóð leggi fyrir í sjóð til að greiða eigin eftirlaun. Lífeyrisgreiðslur eru því fyrst og fremst háðar því hvað mikið hefur verið lagt fyrir á starfsævinni og afkomu sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir eru öflugir og traustir og greiða nú um 60% af ellilífeyri landsmanna auk áfallalífeyris vegna örorku eða andláts. Öflugt lífeyrissjóðakerfi auðveldar okkur að takast á við væntanlegar þjóðfélagsbreytingar sem verða vegna breyttrar aldurssamsetningar.
Höfundur er formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.