Verðtryggingin úrslitaatriði fyrr og nú

„Þakka ber verðtryggingunni fyrir að það tókst að koma í veg fyrir að lifeyriskerfi landsmanna hrundi á sínum tíma. Nú hafa lífeyrissjóðirnir orðið fyrir feiknarlegu höggi í fjármálakreppunni og þá má velta fyrir sér hvernig umhorfs væri, þrátt fyrir allt, ef sjóðirnir ættu ekki verðtryggðar eignir. Ég byði ekki í þá stöðu,“ sagði Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og lektor, í málstofu um fjárhag lífeyrissjóða í Háskólanum í Reykjavík. Hann flutti þar fyrirlestur fyrir troðfullum sal í dag og greindi frá rannsóknum sínum varðandi uppbyggingu og eðli lífeyriskerfis Íslendinga vegna doktorsritgerðar í Háskóla Íslands.

Ólafur kvaðst reyndar hafa velt líka fyrir sér að taka íslensku krónuna fyrir sem viðfangsefni til doktorsprófs en væri ánægður með það nú að hafa valið lífeyrissjóðina frekar en krónuna! Ólafur sagðist eiga erfitt með að skilja kröfur í þjóðmálaumræðunni um „afnám verðtryggingar“, annars vegar af því verðtrygging væri í raun samningsatriði en ekki nauðung, hins vegar vegna þess að eftir áföllin undanfarna daga væru landsmenn einfaldlega heppnir að hafa verðtryggingu við að styðjast. Verulegur hluti einkasparnaðar landsmanna hefði gufað upp á fáeinum dögum og fólk ætti í mörgum tilvikum fátt annað eftir en lífeyrissjóðina sína.

 

Fundarmenn lögðu margar spurningar fyrir Ólaf að fyrirlestri loknum, einkum varðandi evru, hugsanlega Evrópusambandsaðild og áhrif fjármálakreppunnar á lífeyriskerfið. Hann svaraði því afdráttarlaust að Íslendingar ættu að sækja um Evrópusambandsaðild í stað þess að „endurtaka sömu vitleysuna“ með því að framfylgja áfram „skaðlegri stefnu í peningamálum þjóðarinnar.“ Hann sagði að  lífeyrissjóðirnir hefðu fengið  „dýrkeypta lexíu í áhættudreifingu í fjárfestingum“ og í það minnsta tvær áleitnar spurningar vöknuðu í framhaldinu. Í fyrsta lagi hvort unnt væri að halda sig við 3,5% ávöxtunarkröfu við uppgjör lífeyrissjóða, í öðru lagi hvort ekki væri nær að hafa þak á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða á Íslandi frekar en að takmarka fjárfestingar þeirra erlendis, í því skyni að draga úr áhættu. Þannig þyrfti að endurmeta ýmislegt frá grunni til að koma í veg fyrir að sviptingar á einstökum mörkuðum hefðu þau áhrif sem reynslan hefði sýnt og sannað undanfarna októberdaga.