Íslandsbanki hefur gefið út bókina Verðmætasta eignin eftir Gunnar Baldvinsson, forstöðumann lífeyris- og fagfjárfestasviðs eignastýringar Íslandsbanka. Markmiðið með útgáfu bókarinnar er að vekja áhuga á lífeyrismálum og er henni ætlað að vera jafnt almenningi sem sérfræðingum uppspretta fróðleiks og nýrra hugmynda.
Í bókinni er að finna upplýsingar um lífeyris- og eftirlaunamál í víðu samhengi, m.a. hvaða réttindi eru fólgin í lífeyrissjóðum, hvernig fólk geti fundið út hver staða þess sé og hvaða leiðir sé best að fara til að byggja upp eftirlaunasparnað og velja persónutryggingar. Þá er fjallað ítarlega um ávöxtun eftirlaunasparnaðar og hvernig best sé að skipuleggja töku lífeyris í starfslok. Takmarkið er að hver og einn geti lært að stýra sínum lífeyrismálum og þannig ráðið sínum starfslokum og afkomu eftir þau
Með bókinni fylgir notandanafn að öflugri netreiknivél, þar sem hægt er að setja upplýsingar um áunnin lífeyrisréttindi, viðbótarlífeyrissparnað og annan sparnað og reikna út eftirlaun í starfslok. Bókin skiptist í 7 kafla, auk skráa og viðauka, og er alls 255 blaðsíður að lengd.
Gunnar Baldvinsson er forstöðumaður lífeyris- og fagfjárfestasviðs eignastýringar Íslandsbanka. Jafnframt því er hann framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs lækna. Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1985 og lauk MBA námi með áherslu á fjármál og reikningshald frá háskólanum í Rochester í Bandaríkjunum árið 1988. Hann hóf störf hjá Verðbréfamarkaði Iðnaðarbankans (VIB) sama ár og frá stofnun Íslandsbanka árið 1990 hefur hann haft umsjón með lífeyrismálum og rekstri lífeyrissjóða.