Það var fjölmenni í Hörpu sl. föstudag þegar haldið var málþing til heiðurs Hrafni Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða en hann lét nýlega af störfum eftir 36 ára starfsferil. Fram kom í máli Arnar Sigurmundssonar, formanns stjórnar, að þegar Hrafn hóf störf árið 1975 hafi heildareignir sjóðanna numið 8% af landsframleiðslu en að þær hafi verið 125% um síðustu áramót.
„Sá sem hér mælir hefur þekkt Hrafn í liðlega aldarfjórðung og ber honum vel söguna. Einstakur maður í öllum samskiptum sem sannarlega á sinn þátt í þeirri öflugu og mikilvægu starfsemi sem lífeyrissjóðirnir standa fyrir. Þetta kom best í ljós í hruninu og öllu því umróti sem því fylgdi,“ sagði Arnar í sinni ræðu. Benti Anar á að lífeyrissjóðafólk hafi alltaf þurft að vera á varðbergi til að varðveita dýrmætustu eignina, lífeyrisréttindi sjóðfélaganna.
Dagskrá málþingsins var fjölbreytt og spunnust nokkrar umræður að loknum erindum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri ræddi um íslenska lífeyrissjóðakerfið, styrkleika og veikleika þess í alþjóðlegum samanburði. Fram kom í máli hans að Íslendingar mættu vera stoltir af sínu kerfi enda væri það með því besta sem þekktist í heiminum. Þá fjallaði Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða um þróun löggjafar um lífeyrissjóðina og benti á að lífeyrisréttur væri verndaður í stjórnarskrá.
Í erindi Þorkels Sigurlaugssonar, formanns stjórnar Framtakssjóðs Íslands kom fram að hann teldi eitt mikilvægasta hlutverk lífeyrissjóðanna og Framtakssjóðs að koma hlutum á hreyfingu með fjárfestingum í atvinnulífinu og að í þeim efnum væru margir áhugaverðir kostir í boði. Að lokum fjallaði Ásmundur Stefánsson hagfræðingur um stöðu aldaðra. Hann hélt því m.a. fram að stjórnvöld ynnu nú gegn séreignasparnaði og eitt brýnasta verkefni lífeyrissjóðanna væri að halda vöku sinni og verja réttindi sjóðsfélaga, einkum þeirra sem væru með lægstu launin.
Glærur frá vinafundinum:
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, ávarp glærur
Þórey S. Þórðardóttir hrl., framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ