Gert er ráð fyrir lækkun á frádráttarbæru viðbótariðgjaldi úr 4% í 2% af launum í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Með þessum hætti er verulega vegið að lífeyrissjóðakerfinu. Í Morgunblaðinu þann 13. október birtist grein um málið eftir Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, Harald Yngva Pétursson, rekstrarstjóra séreignarsjóðsins Lífeyrisauka og Tryggva Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins. Greinin er hér birt í heild sinni.
"Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að frádráttarbært viðbótariðgjald sem ráðstafað er í séreignarsparnað lækki úr 4% í 2% af launum. Þetta þýðir að einstaklingar sem hafa greitt 4% af launum í séreignarsparnað verða að lækka iðgjald sitt í 2%, til að forðast tvískattlagningu. Stefnt er að því að breytingin skili ríkinu 1,4 milljarði í auknar skatttekjur eða um 0,3% af heildarskatttekjum á árinu 2012. Við teljum að þessi breyting sé
vanhugsuð því með henni er vegið að langtímasparnaði og afkomu fólks á efri árum.
Viðbótarlífeyrissparnaður er eitt hagstæðasta sparnaðarform sem völ er á og líka eitt það einfaldasta. Launagreiðandi sér um að draga iðgjald af launum einstaklinga og greiða til þess vörsluaðila sem viðkomandi hefur valið sér. Við bætist að hvorki þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum né erfðafjárskatt ef erfingjar eru maki og börn. Jafnframt er lífeyrissparnaður ekki aðfararhæfur við gjaldþrot.
Þegar þessir sérstöku þættir viðbótarlífeyrissparnaðar eru hafðir í huga sést að hvatinn til að spara með öðrum hætti er minni. Því er allt eins líklegt að frumvarpið, verði það samþykkt óbreytt, muni leiða til þess að langtímasparnaður minnki. Lífeyrisárin eru að meðaltali um fjórðungur af fullorðinsárunum og ræður sparnaður mestu um fjárhagslega afkomu á þessu æviskeiði. Frá því í mars 2009 hefur einstaklingum verið heimilt að taka út séreignarsparnað sinn þótt 60 ára aldri sé ekki náð. Þeir sem hafa nýtt sér þá heimild hafa valið að auka ráðstöfunartekjur í nútíð á kostnað ráðstöfunartekna í framtíð. Fyrirhuguð breyting felur ekki í sér val um að lækka iðgjaldið úr 4% í 2% af launum heldur er hún þvinguð í gegn með lagabreytinguÞessi fyrirhugaða breyting á lögum felur í sér að ríkið fær minni skatttekjur í framtíðinni en það hefði fengið að öllu óbreyttu og líkur aukast á að ríkissjóður þurfi í meiri mæli en áður að bera ábyrgð á lífeyrisgreiðslum einstaklinga. Því er í raun ekki verið að auka tekjur ríkisins, heldur aðeins verið að færa þær fram í tíma. Auknar byrðar munu því óhjákvæmilega leggjast á næstu kynslóðir verði af þessari breytingu.Þau rök hafa verið færð fyrir þessari tillögu að einstaklingar þurfi á launum sínum að halda á krepputímum og að ríkið sé því með þessum aðgerðum að hjálpa fólki. Þetta er að sjálfsögðu alrangt, enginn er skyldugur að leggja fyrir í séreignarsparnað, hvorki 4% af launum né 2% og einstaklingar með séreignarsparnað geta sjálfir valið að lækka iðgjaldið ef það hentar þeim betur. Fjölmargir hafa þegar gripið til þess ráðs í kjölfar efnahagshrunsins eins og eðlilegt er. Önnur rök hafa verið á þann veg að þetta sé leið til þess að örva hagkerfið og hvetja til einkaneyslu og fjárfestinga. Væntanlega mun einkaneysla eitthvað aukast með þessum aðgerðum en rétt er að gera sér grein fyrir því að fjármunir sem greiddir eru í séreignarsparnað fara beint aftur út í hagkerfið í formi fjárfestinga með einum eða öðrum hætti. Vandséð er því að þessi aðgerð muni leiða til aukinna fjárfestinga í hagkerfinu en ella hefði orðið. Loks þarf að hafa í huga að það hefur tekið langan tíma að byggja upp séreignarsparnað. Ef stjórnvöld ákveða síðar að heimila aftur að legga fyrir 4% iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar er alls óvíst að fólk velji að hækka iðgjaldið á ný.Að öllu samanlögðu er ljóst að boðaðar breytingar á séreignarsparnaði eru ekki góðar. Það er engu að síður von okkar að frumvarpið fái ítarlega og faglega umfjöllun en um leið að ráðamenn beri að lokum gæfu til að falla frá þessum hugmyndum."