"Umfjöllun Sigrúnar Davíðsdóttur í Spegli RÚV þann 9. nóvember sl. var full af alhæfingum og rangfærslum varðandi meinta hagsmuni lífeyrissjóðanna í landinu þegar hún sagði frá umdeildum viðskiptum íslenskra banka og nafngreindra eignarhaldsfélaga."
Þetta kemur fram í athyglisverðri grein Helga Magnússonar, formanns stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem birtist í Morgunblaðinu s.l. þriðjudag.
Helgi er mjög ósáttur við umfjöllun Sigrúnar í umræddum fréttapistli. Hún reyni í gegnum allan pistilinn að gera íslenska lífeyrissjóði tortryggilega vegna þessara viðskipta sem voru þeim með öllu óviðkomandi. Auk þess dregur Sigrún rangar ályktanir og vænir lífeyrissjóðina um að hafa ekki aðhafst varðandi rannsóknir eða hagsmunagæslu vegna þeirra atburða sem urðu hér á landi árið 2008.
Landssamtök lífeyrissjóða taka undir sjónarmið Helga Magnússonar í greininni, sem birtist hér í heild sinni.
Umfjöllun Sigrúnar Davíðsdóttur í Spegli RÚV þann 9. nóvember sl. var full af alhæfingum og rangfærslum varðandi meinta hagsmuni lífeyrissjóðanna í landinu þegar hún sagði frá umdeildum viðskiptum íslenskra banka og nafngreindra eignarhaldsfélaga.
Lýsingin á samskiptum umræddra banka og fyrirtækja er ekki falleg, ef rétt reynist. Ég hef enga skoðun á þeim og þekki málavexti ekki.
Það sem ég er ósáttur við í umfjöllun Sigrúnar er að hún reynir í gegnum allan pistilinn að gera íslenska lífeyrissjóði tortryggilega vegna þessara viðskipta sem voru þeim með öllu óviðkomandi. Auk þess dregur hún rangar ályktanir og vænir lífeyrissjóðina um að hafa ekki aðhafst varðandi rannsóknir eða hagsmunagæslu vegna þeirra atburða sem urðu hér á landi árið 2008.
ÓLÍÐANDI VINNUBRÖGÐ
Ljóst er að Sigrún Davíðsdóttir hefur ekki haft fyrir því að kynna sér hvað lífeyrissjóðirnir hafa aðhafst á þessu sviði og hún leyfir sér að fullyrða út í loftið og gerast dómari og refsinorn í fréttaþætti útvarpsins á grundvelli fullyrðinga sem eru rangar. Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðandi og því verður ekki tekið þegjandi að svona sé unnið hjá Ríkisútvarpinu sem okkur öllum er gert að greiða fyrir rekstur á.
Ein af röngum ályktunum Sigrúnar Davíðsdóttur birtist svona orðrétt í lok umfjöllunar hennar:
„Lífeyrissjóðirnir hafa komið sér saman um framtakssjóð til fjárfestinga. En af hverju hafa þeir ekki komið sér saman um öflugt rannsóknarteymi til að gaumgæfa fjárfestingar sjóðanna, spyrja gagnrýninna spurninga í stað þess að taka nauðasamningum og hugsanlega til að endurheimta fé í málssóknum gegn þeim sem ollu þeim ómældu tapi?“
RANNSÓKN Í GANGI
Ef Sigrún hefði haft fyrir því að afla upplýsinga og staðreynda um málið sem hún var með í vinnslu, hefði hún komist að eftirfarandi:
1. Landssamtök lífeyrissjóða lét taka saman skýrslu um þann lærdóm sem lífeyrissjóðirnir geta dregið af hruninu og aðdraganda þess. Sú skýrsla var kynnt og gerð opinber vorið 2010.
2. Lífeyrissjóðirnir fólu sáttasemjara ríkisins að velja 3 hæfa, óháða og sérhæfða aðila til að framkvæma rannsókn á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna undanfarin ár og samskiptum við fjármálastofnanir í aðdraganda hrunsins. Þessi rannsóknarnefnd er starfandi undir formennsku Hrafns Bragasonar, fyrrverandi hæstaréttardómara. Hún skilar vonandi niðurstöðu snemma á nýju ári. Tilkynnt var um skipan þessarar nefndar fyrir mörgum mánuðum og hefur tilvist hennar ekki farið leynt.
3. Nokkrir af þeim lífeyrissjóðum sem voru með gjaldeyrisvarnarsamninga við stóru bankana hafa í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða ráðið hóp reyndra lögmanna til að meta réttarstöðu lífeyrissjóðanna vegna meintrar markaðsmisnotkunar. Lífeyrissjóðirnir gerðu slíka samninga á fullkomlega faglegum grundvelli til að draga úr áhættu og til að læsa inni fengna ávöxtun. Hjá lífeyrissjóðunum voru menn í góðri trú og gátu með engu móti séð fyrir að áhrifaaðilar tækju stöðu gegn íslensku krónunni, eins og haldið hefur verið fram, sem leiddi til gengisfellingar. Lífeyrissjóðirnir munu að sjálfsögðu gæta hagsmuna sinna og sækja að þeim sem kunna að hafa brotið gegn sjóðunum.
Eins og sjá má af framangreindu þarf Sigrún Davíðsdóttir, eða aðrir sem fjalla um málefni lífeyrissjóðanna á misyfirvegaðan hátt, ekki að hafa áhyggjur af því að menn séu ekki að „koma sér saman um“ nauðsynlegar rannsóknir eða lögfræðilega hagsmunagæslu þar sem við á. Þetta hefur þegar verið gert og auðvelt hefði verið að fá það staðfest ef vandað hefði verið til verka við gerð umrædds pistils í Speglinum.
Ástæða væri til að víkja að fleiri atriðum í pistli Sigrúnar en ég læt það vera að sinni. Sumt af því eru augljósar dylgjur og órökstuddir sleggjudómar og annað illskiljanlegt. Ég hvet Sigrún Davíðsdóttur hins vegar til að hafa samband við framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða eða einstakra lífeyrissjóða áður en hún leggur aftur út á þá braut að fjalla um málefni íslenskra lífeyrissjóða. Með því gæti hún losað sig við villur og rangfærslur sem eru reyndum fjölmiðlamanni ekki til sóma en í umræddum Spegilsþætti sýndi Sigrún Davíðsdóttir yfirgripsmikla vanþekkingu á umfjöllunarefninu.