Vaxtaviðmiðun vegna tryggingafræðilegra úttekta lækkuð í Sviss.

Svissneska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni lækka vaxtaviðmiðun vegna tryggingafræðilegra úttekta hjá lífeyrissjóðunum úr 4% í 3% frá og októbermánaði n.k. Reiknivextirnir miðast við nafnávöxtun.

Við því var búist að svissneska ríkissjórnin mundi tilkynna ákvörðun sína í október n.k. með gildistöku nýrrar vaxtaviðmiðunar frá og með næsta ári, en svo var ekki og er skýringin rakin til þess að slakt gengi á verðbréfamörkuðum hafi neytt ríkistjórnina til að taka þessa ákvörðun fyrr en seinna. Þessi ákvörðun um lækkun vaxtaviðmiðunar úr 4% í 3% er þó ekki talin endanleg, því gert er ráð fyrir því að reiknivextirnir verði endurskoðaðir reglulega til hækkunar eða lækkunar. Líftryggingafélögin hafa fagnað þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem kemur mánuði eftir að Credit Suisse var beinlínis neytt til þess að dæla um 1,2 milljörðum evrum til Winterhur Life Insurance til að koma í veg fyrir fyrirsjáanleg áföll fyrirtækisins vegna slaks gengis á verðbréfamörkuðum. Tilkynning ríkisstjórnarinnar um lækkun viðmiðunarvaxta við tryggingafræðilegar úttektir hafði strax í för með sé hækkun á hlutabréfum í svissneskum líftryggingafélögum, þ.á.m. Swiss Life, þar sem hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu um 15%. Lífeyrissjóðirnir eru almennt betur í stakk búnir en líftryggingafélögin til að viðhalda þeirri vaxtaviðmiðun og þar með lífeyrissloforðum sem þeir hafa gefið, m.a. með því að leggja til hliðar fjármuni, sem hægt er að nota í niðursveiflu á verðbréfamörkuðunum. Líftryggingafélögin hafa ekki þetta svigrúm og höfðu því þrýst mjög mikið á svissnesk stjórnvöld að lækka viðmiðunarvextina. Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafa verið mjög neikvæð varðandi þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem hún kallar hneyksli og að svissneska ríkisstjórnin sé verkfæri líftryggingafélaganna, þar sem lífeyrisþegar muni tapa verulega vegna lækkunar reiknivaxta og þar með lækkun lífeyrisloforða. Vert er að geta þess að vaxtaviðmiðunin á Íslandi vegna tryggingafræðilegra úttekta er mun hærri, þar sem hún er umfram hækkun neysluverðsvísitölu. Við núvirðisreikning væntanlegs lífeyris og framtíðariðgjalda hjá lífeyrissjóðunum hér á landi skal nota 3,5% vaxtaviðmiðun umfram vísitölu neysluverðs. Þar sem lífeyrisréttindi miðast við kaupgjald, skal hins vegar nota 2,0% vaxtaviðmiðun. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á þessari tryggingafræðilegu vaxtaviðmiðun hér á landi.


Byggt á IPE september 2002