Varasjóður almannatrygginga Spánar verði bjarghringur héraðsstjórna

Spánska þingið samþykkti á dögunum frumvarp ríkisstjórnarinnar um umbætur á lífeyriskerfinu og á sama tíma viðraði stjórnin hugmynd um að nota fjármuni í varasjóði almannatrygginga til að fjárfesta í skuldabréfum sem héraðsstjórnir landsins gefa út. Þannig væri unnt að aðstoða sjálfsstjórnarhéruð á Spáni sem stofnuðu til skulda upp á 155 milljarða evra árið 2010 en sú upphæð svarar til 10,9% af vergri landsframleiðslu Spánverja. Í þessum varasjóði almannatrygginga eru um 67 milljarðar evra og hann fjárfestir einkum í spánskum ríkisskuldabréfum. Ekki hefur enn verið upplýst um mikla fjármuni úr sjóðnum á að nota til að kaupa héraðsskuldabréf.

 

Í nýjum lífeyrislögum á Spáni er kveðið á um að eftirlaunaaldur hækki úr 65 í 67 ár og breytingin taki gildi í áföngum á nokkrum árum. Þá munu Spánverjar þurfa að vinna í að minnsta kosti 37 ár til að eiga fullan lífeyrisrétt og munu ekki eiga rétt á að fara á eftirlaun fyrr en við 63 ára aldur. Þá er nú lögbundið að öryrkjar geti farið fyrr á eftirlaun hafi þeir greitt til lífeyriskerfisins í 25 ár.

Frumvarp til laga um skipulag lífeyrismál Spánverja var lagt fyrir þjóðþing þeirra í janúar 2011 og samþykkt í neðri deild þess núna í júní eftir miklar umræður.

Spánverjar eru í sömu sporum og flestar aðrar Evrópuþjóðir. Þjóðin eldist hlutfallslega og það veldur lífeyriskerfinu augljósum vandræðum að standa undir skuldbindingum sínum.

 Byggt á fréttaveitunni ipe.com