Í tilefni umræðna á Alþingi í gær um upplýsingaskyldu varðandi launakjör framkvæmdastjóra og stjórna lífeyrissjóða og kaupréttarsamninga skal tekið fram að Fjármálaeftirlitið setti í desember 2004 reglur um ársreikninga lífeyrissjóða, þar sem tilgreina skal heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnar og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs vegna starfa í þágu sjóðsins. Upplýsingarnar skulu sérgreindar á einstaka stjórnarmenn og framkvæmdastjóra.
Með launum og þóknunum er auk beinna launa átt við hvers konar starfstengd hlunnindi svo sem bifreiða- og húsaleiguhlunnindi. Með störfum í þágu lífeyrissjóðs er m.a. átt við störf sem viðkomandi gegnir í krafti eignaraðildar lífeyrissjóðs að dóttur- eða hlutdeildarfélögum, sem og setu í nefndum og stjórnum sem hann er tilnefndur í af hálfu lífeyrissjóðsins, þótt þóknanir fyrir þau störf séu ekki greiddar af lífeyrissjóðnum sjálfum.
Reglur þessar voru settar eru settar samkvæmt heimild í 5. mgr. 40. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og komu til framkvæmda við gerð ársreiknings fyrir árið 2004.
Eðli málsins samkvæmt er ekki um að ræða neina kaupréttarsamninga hjá lífeyrissjóðunum.